McEwan segist ekki vilja segja öðrum rithöfundum hvernig þeir eigi að skrifa, eða um hvað. Hann segist sjálfur raunar ekki hafa mikinn áhuga á stjórnmálum, „ég hef hins vegar á áhuga á skurðpunkti stjórnmála og siðferðis,“ segir McEwan. Hann segist oft undrast að skáldsagan hafi haldið velli allan þennan tíma, hún ætti eiginlega að vera löngu dauð. 19. aldar form, og samkeppnin um athygli okkar mjög mikil, sennilega aldrei meiri. McEwan segir að ein af ástæðum þess að skáldsagan sem bókmenntaform hafi haldið vinsældum sínum sé sú að hún sé enn besta verkfærið sem við höfum til að kanna einkalíf einstaklingsins, og fjalla um einstaklinginn andspænis samfélaginu. Lesendum hafi sannarlega fækkað, en ástríðan sé þó enn til staðar eins og hann verði áþreifanlega var við sjálfur þegar hann kemur fram, víðsvegar um heiminn. Skáldsagan búi enn yfir mikilvægum eigindum sem ekkert annað listform hafi.
Ég spurði McEwan hvort hann sæi einhver gegnumgangandi þemu í höfundarverki sínu. Hann svaraði því til að fyrstu verk hans hefðu verið ofbeldisfull og dökk, en þótt verkin hafi sannarlega breyst sé hann enn heillaður af eyðingarmætti mannlegs eðlis og hinum dökku hliðum þess. Hann hafi með tímanum fundið aðferðir til þess að innlima í skáldskap öll sín helstu hugðarefni, vísindi, sagnfræði og svo framvegis. Aðferðir hans við að vinna hafi ekkert breyst frá því hann byrjaði að skrifa fyrir ríflega fjörutíu árum. Ástríðan sé sú sama, sem og angistin sem fylgir því að hugleiða hvort hann sé að gera rétt eða ekki. Um það hvers vegna hann skrifi skáldsögur, segir McEwan að það sé leið hans til að skilja heiminn, hann hafi fengið gott start strax í byrjun síns rithöfundaferils, verk hans hlutu góðar viðtökur strax í upphafi. Það að skrifa skáldsögur sé ekki eiginlegt starf í hans tilfelli, hann geri þetta ekki fyrir peninga, ritstörfin séu lífsmáti. „Þetta er mín leið til að lifa af, veruháttur,“ segir Ian McEwan.
Rætt var við Ian McEwan í Víðsjá þegar hann heimsótti Ísland 2002, kannski á hátindi ferilsins. Ári áður hafði komið út skáldsagan Atonement, eða Friðþæging eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, verk sem sló í gegn, og var síðan kvikmyndað. Í því viðtali talaði McEwan meðal annars nokkuð fjálglega um þau áhrif sem 19. aldar skáldsögur hafa haft á hann í gegnum tíðina. Hann sagðist á Gljúfrasteini í vikunni enn sækja mikið í skáldskap 19. aldarinnar og ríka bókmenntahefð hennar.
Kakkalakki kemst til valda
Eftir rúma viku kemur út nýtt verk eftir Ian McEwan, nóvella í kafkaískum anda, hún heitir The Cockroach, Kakkalakkinn, og fjallar í stuttu máli um kakkalakka sem vaknar einn góðan veðurdag og kemst að hann hefur breyst í mann, og ekki bara einhvern mann, heldur forsætisráðherra. Með honum í ríkisstjórn sitja einnig kakkalakkar sem breyst hafa í menn, stjórnin hefur aðeins eitt á stefnuskrá sinni: Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. „Mín tilfinning er sú að eitthvað ljótt, framandi, skrýtið og andstyggilegt sé farið að einkenna stjórnmál samtímans,“ segir McEwan, sem er hreint ekki hrifinn af Brexit, það er vægt til orða tekið, hann talaði til dæmis í viðtali við breska blaðið The Observer fyrr á þessu ári um þjóðarharmleik í því samhengi. McEwan segir að logið hafi verið að þjóðinni, og að ef af útgöngunni verði, sem sé mjög líklegt, muni þeir þjást mest sem minnst hafa milli handanna, sama fólkið og greiddi á sínum tíma atkvæði með Brexit.
McEwan er mikill handverksmaður þegar kemur að skáldsagnagerð. Skáldsögur hans eru yfirleitt nánast gallalausar að formi, og uppbyggingu, það er allt á réttum stað. McEwan sagði mér í betri stofunni á Gljúfrasteini að þegar hann byrjar á nýju verki viti hann nokkurn veginn hvernig það muni enda. Hann negli samt sjálfa uppbyggingu verksins ekki niður strax í byrjun af þeirri einföldu ástæðu að eitt það ánægjulegasta við það að skrifa skáldsögu sé hið óvænta. „Ég veit hvert ég stefni en ég veit ekki hvað mun gerast á leiðinni,“ sagði Ian McEwan.
Nýjasta verk Ians McEwans, Kakkalakkinn, kemur eins og áður segir út 27. september. Hann skilaði handritinu fyrr í þessum mánuði, og kveðst ekki vera byrjaður á nýju verki. Hann ætlar að koma aftur til Íslands strax á næsta ári, þá með hópi vísindamanna. Ég spurði McEwan í blálokin hvort hann langaði til að breyta heiminum með skrifum sínum. „Ég efast um að skrif mín muni breyta heiminum,“ svaraði hann, „en ég myndi mjög gjarnan vilja sjá heiminn breyta sjálfum sér og ég myndi með glöðu geði hjálpa honum við það.“