Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skáld á Íslandi sem ekki yrkja á íslensku

Mynd:  / 

Skáld á Íslandi sem ekki yrkja á íslensku

07.03.2019 - 12:43

Höfundar

Það var árið 2015 eða 2016 að kanadíska skáldkonan Angela Rowlings kallaði saman konur sem lögðu stund á skáldskap og voru af erlendum uppruna á samráðsnámskeið um skáldskap. Úr þessum farvegi óx síðan tímaritið Ós The Journal sem í desember á síðasta ári sendi frá sér sitt þriðja árshefti með margvíslegum skáldskap eftir erlenda rithöfunda sem búsettir eru á Íslandi og íslenska rithöfunda sem margir hverjir eru búsettir í útlöndum.

Þær Anna Valdís Kró og Helen Cova sem báðar eru í ritstjórn nýs heftis Óss The Journal ásamt Pedro Gunnlaugi Garci sögðu frá skáldatilveru sinni og vinnunni við Ós The Journal í þættinum Orð um bækur 2. mars síðastliðinn.

Í flestum Evrópulöndum eru bókmenntir innflytjenda löngu orðnar sjálfsagður hluti af bókmenntalífinu. Hér á landi hafa höfundar sem ekki eiga sér íslensku að móðurmáli hins vegar verið frekar afskiptir og út af fyrir sig. Þetta er þó eitthvað að breytast enda afar áhugavert að fá í gegnum skáldskap og bókmenntir innsýn í veruleika þeirra hér.

Í tengslum við útgáfu þriðja heftis Óss The Journal hefur verið efnt til tveggja upplestrarkvölda og var það síðara í Stofunni við Vesturgötu á Valentínusardaginn, þann 14. febrúar síðastliðinn. Hér má hlust á upptöku frá kvöldinu.

Mynd:  / 
Nokkrir höfundanna sem lásu upp í Stofunni 14/2 2019

 

Höfundarnir sem lásu upp voru Giti Chandra frá Indlandi. Hún las ellefu stutt ljóð á ensku. Þá (15:30) var komið að Sverri Norland sem nú um nokkurra ára skeið hefur verið búsettur í New York en skrifar auðvitað á íslensku. Sverrir las smásögu sína „Listin að lesa bækur“. Helen Cova frá Venesuela býr nú á Íslandi og vinnur á frístundaheimili. Hún las (21:55) nýtt efni sem hún hafði enn ekki gefið titil og kafla úr sagnasafni fyrir börn sem hún vinnur nú að og ber sagan sem hún las titilinn „Sigurður the Second Nomad“. Pedro Gunnlaugur Garcia las ljóð sitt „Leikbrúður“ (34:39). Þá var komið að Herthu Maríu Richardt sem las tvö ljóð (42:36) og á eftir henni sté Frakkinn Sebastian Nouat í pontu (52:26) sem las smásögu og nokkur ljóð. Þ'a var komið að Larissu Kaiser sem hefur verið Fullbright stúdent á Íslandi um nokkurra ára skeið og mest lagt stund á þýðingar. Hún las enskar þýðingar sínar á ljóðum eftir Elenu Ilkova (1:01:16) og þýðingu á ljóðum eftir Kára Tulinius (1:08:17) sem er búsettur í Finnlandi.