
Skagfirskir Lionsmenn bæta lífsgæði fatlaðra
Þegar Iðja, miðstöð fyrir fatlaða á Sauðárkróki, var opnuð vorið 2016 höfðu skagfirskir Lionsmenn í nokkurn tíma horft í kringum sig eftir tækifæri til að ráðast í verðugt verkefni í tilefni 100 ára afmæli hreyfingarinnar. Og við opnun Iðju, sáu þeir sér leik á borði.
Fjórar milljónir og fjórir Lionsklúbbar
„Þá mættu þarna félagar úr Lionshreyfingunni og afhentu gjafabréf um að það yrði afhent þarna fullbúið skynörvunarherbergi," segir Magnús Svavarsson, félagi í Lionsklúbbi Sauðárkróks. Fjórir Lionsklúbbar í Skagafirði sameinuðust um gjöfina, sem metin er á um fjórar milljónir króna. Magnús tekur fram að auk Lionsklúbbanna hafi sveitarfélagið og fleiri lagt til fjármagn. „Ég efast ekki um það að þetta eigi eftir að nýtast vel," segir Magnús og Lionsmenn séu ánægðir með þeirra aðkomu.
Aðstaða sem nýtist víða í samfélaginu
Skynörvunarherbergi er rými þar sem með ýmsum búnaði er hægt að örva skynfæri einstaklings í öruggu og friðsælu umhverfi. Þau hafa reynst vel einstaklingum með alvarlega fötlun, skyntruflanir, eins og nafnið bendir til. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri málefna fatlaðs fólks í Skagafirði, segir þegar ljóst að herbergið nýtist 14 einstaklingum. Þegar fram líða stundir geti aðstaðan nýst víðar í samfélaginu og þá ekki eingöngu þeim sem sækja þjónustu Iðju.