Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Skaftárhlaup er hafið

20.06.2010 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Hlaup er hafið í Skaftá. Hlaupið hófst skömmu eftir klukkan tvö. Vatn kemur nú undan Vatnajökli nærri Sveinstindum norðan við Langasjó. Lögreglan á Hvolsvelli gerir ráð fyrir að hlaupið verði við fjallaskálann Hólaskjól á Nyrðra-Fjallabaki um klukkan 16:00 og við bæinn Skaftárdal um 18:30.

Nokkru seinna verður flóðið komið að Kirkjubæjarklaustri. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur verið haft samband við íbúa í Skaftárdal, en flætt getur yfir veginn þangað.

Ekki er ljóst hve stórt hlaupið verður en það fer eftir því úr hvorum katlinum í Vatnajökli hlaupið kemur. Katlarnir eru undir jöklinum. Vegna jarðhita sem er undir jöklinum fyllast þeir reglulega af vatni sem hleypur fram öðru hvoru. síðast gerðist það í október 2008.

Vestari ketillinn er sá minni og sé hlaupið úr honum er því í minna lagi. En ef það er úr eystri katlinum er það stærra, segir Óðinn Þórarinsson sem fylgist með hlaupinu hjá Veðurstofunni.

Fyrstu vísbendingar um hlaup bárust í nótt úr viðvörunarkerfi Veðurstofunnar við Sveinstind mælar þar mæla rafleiðni og ljósleiðni í vatninu, en hvort tveggja vex í aðdraganda hlaups. Um miðnætti í nótt voru vísbendingar um að hlaup yrði á næstunni og upp úr hádegi í dag voru vísindamenn orðnir nokkuð vissir um það.

Við Sveinstind hefur vatnsyfirborð hækkað um 40 sentimetra, rennsli hefur aukist úr 190 rúmmetrum í 255 rúmmetra á sekúndu.

Síðast þegar hljóp úr eystri katlinum í Vatnajökli, þeim stærri, nam rennslið 1400 - 1500 rúmmetrum á sekúndu.

Óðinn segir að ómögulegt sé að segja á þessari stundu um umfang flóðsins. Hraðinn á rennslinu bendi þó til þess að flóðið sé í minni kantinum.

Lögreglan á Hvolsvelli gerði íbúum í námunda við Skaftá strax viðvart þegar hlaupið hafði verið staðfest. Lögreglan hefur ennfremur haft samband við Ferðafélagið Útivist sem á fjallaskála á svæðinu og hálendismiðstöðina Hólaskjóli. Lögregla bendir á að fólk eigi ekki að vera í námunda við upptök árinnar sem eru í Vatnajökli fyrir austan Langasjó. Íbúar á bænum Skaftárdal eru farnir af bænum. Ekki er  talin hætta á ferðum.

Lögregla fylgist grannt með í samvinnu við Veðurstofu Íslands, ferðamenn á Nyrðra-Fjallabaki eru beðnir um að hafa vara á sér. Rétt er að vara við brennisteinsmengun sem helst gætir nærri upptökum hlaupvatnsins. Varast ætti að vera á ferð þar sem brennisteinslyktar gætir.