Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skaðleg efni, innan húss og utan

05.10.2015 - 15:54
Mynd: - / flickr.com
Gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógnar frjósemi og heilsu manna, á þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hefur í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Stefán Gíslason fjallar um í pistli sínum í Samfélaginu.

Hættuleg efni

Í síðustu viku kom út býsna svört skýrsla um heilsufarsleg og þjóðhagsleg áhrif kemískra efna sem leynast í nánasta umhverfi manna, innanhúss sem utan. Það telst reyndar ekki til tíðinda að gefnar séu út skýrslur um þetta efni, en þessi skýrsla þykir sérstök að því leyti að að henni standa Alþjóðasamtök kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (FIGO) og aldrei fyrr hafa alþjóðasamtök lækna tekið eins skýra afstöðu í þessum málum og gert er í þessari skýrslu. Í skýrslunni kemur fram að gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógni frjósemi og heilsu manna, eigi þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hafi í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru m.a. varnarefni, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni.

Skýrslan sem hér um ræðir er skrifuð af hópi kvensjúkdómalækna, fæðingarlækna og annarra vísindamanna, m.a. frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada, í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og Háskólann í San Fransiskó. Við kynningu á skýrslunni hafði aðalhöfundar hennar, Dr. Gian Carlo Di Renzo, heiðursritari FIGO, það á orði að við værum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum. Læknar og hjúkrunarfólk sem fæst við frjósemisheilbrigði horfi með eigin augum upp á fjölgun heilbrigðisvandamála sem tengjast efnunum. Með því að koma í veg fyrir að fólk umgangist þessi efni megi létta mjög þessum byrðum af konum, börnum og fjölskyldum um heim allan.

Nú telja sjálfsagt margir að þau ólíku manngerðu efni sem er að finna í neytendavörum nútímans séu öryggisprófuð í bak og fyrir, þannig að mönnum eigi ekki að geta stafað nein hætta af þeim. En sú er alls ekki raunin. Í skýrslu um stöðu þekkingar á hormónaraskandi efnum sem WHO og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna gáfu út árið 2012 kom fram að í notkun væru um það bil 800 efni sem talin væru geta truflað hormónastarfsemi líkamans og að aðeins lítill hluti þeirra hefði verið prófaður með tilliti til áhrifa af þessu tagi. Í skýrslunni kom líka fram að það sama gilti um flest önnur efni sem fyrirfinnast á markaðnum.

Framleiðsla á kemískum efnum hefur vaxið gríðarlega síðustu 40 ár og enn er gert ráð fyrir 3,4% árlegri framleiðsluaukningu til ársins 2030. Fjöldi efna á heimsmarkaði er nú á bilinu 70- til 100 þúsund og þar af eru tæplega 5.000 efni framleidd í mjög miklu magni. Árið 2007 var heildarnotkun varnarefna í heiminum um 2,4 milljónir tonna og í Bandaríkjunum einum voru árið 2012 framleidd eða flutt inn samtals um 4.300 milljón tonn af kemískum efnum. Þetta samsvarar um 13 tonnum á hvert mannsbarn þar í landi. Í raun vita menn sáralítið um áhrif þessara efna, því að aðeins lítið brot af þeim hefur verið prófað. Svipað gildir um önnur lönd, enda gera fríverslunarsamningar það að verkum að erfitt er að takmarka viðskipti með efni á milli landa og heimshluta.

Í skýrslu FIGO eru rakin ýmis dæmi um víðtæk áhrif kemískra efna á heilsu og efnahag. Þannig er talið að um það bil 7 milljónir manna deyi árlega vegna mengunar í lofti innan dyra og utan, samanlagður kostnaður vegna eitrunar af völdum varnarefna meðal landbúnaðarverkamanna í Afríku sunnan Sahara á árunum 2005-2020 er áætlaður um 66 milljarðar Bandaríkjadala eða um 560 milljarðar íslenskra króna á hverju ári, lægsta mat á árlegum kostnaði vegna hormónaraskandi efna í löndum Evrópusambandsins er 157 milljarðar evra eða um 22.400 milljarðar íslenskra króna og kostnaður vegna sjúkdóma í börnum í Bandaríkjunum vegna eiturefna í lofti, mat, vatni, jarðvegi og húsakynnum var áætlaður um 76,6 milljarðar dollara árið 2008, eða um 9.800 milljarðar íslenskra króna. Síðast en ekki síst hefur verið reiknað út að árlegur kostnaður Norðurlandanna vegna neikvæðra áhrifa hormónaraskandi efna úr varnarefnum, snyrtivörum og öðrum neytendavörum á frjósemisheilbrigði karlmanna sé um 36 milljarðar evra, eða rúmlega 5.000 milljarðar íslenskra króna. Sennilega eru þó allar þessar tölur vanáætlaðar, enda erfitt að leggja mat á ýmsan óbeinan kostnað, svo sem vegna skertrar starfsgetu og vegna áhrifa eiturefna á vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir heilsu manna.

Í skýrslu FIGO kemur fram að ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af neikvæðum áhrifum efna í nánasta umhverfi okkar á heilsu manna, og þá sérstaklega á heilsu ungbarna og verðandi mæðra, sem eðli málsins samkvæmt eru sá hópur sem FIGO beinir sjónum sínum öðru fremur að og er jafnframt viðkvæmastur fyrir áhrifum efnanna. Í skýrslunni eru þær heilbrigðisstéttir sem einkum vinna með mæður og ungbörn hvattar til að beita sér fyrir stefnumörkun sem kemur í veg fyrir að fólk umgangist hættuleg efni í miklum mæli og taka virkan þátt í umræðum um þessi mál, jafnt í heimahéraði sem á landsvísu og á heimsvísu. Sömuleiðis ættu þessar stéttir að beina sjónum í auknum mæli að fæðuvenjum fólks, enda sé holl fæða öflugt meðal. Þess vegna ættu þessar stéttir að beita sér fyrir því að fólk sem er að stofna fjölskyldu hafi sem bestan aðgang að ferskum ávöxtum, grænmeti sem hefur verið ræktað án varnarefna, belgjurtum og grófu korni, en beina því að sama skapi frá skyndibitum og öðrum unnum matvörum. Heilbrigðisstéttir þurfi að byggja upp góða þekkingu á hættulegum efnum í umhverfinu og strax í fyrstu mæðraskoðun ætti að fara yfir það með verðandi foreldrum að hvaða marki þau hafi umgengist hættuleg efni fyrr á lífsleiðinni. Sömuleiðis ættu heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir að ganga á undan með góðu fordæmi og nota innkaupamátt sinn til að sveigja markaðinn í átt að umhverfisvænni og heilnæmari valkostum, jafnt við val á byggingarefni, matvörum og öðrum neysluvörum. Loks þurfi heilbrigðisstarfsmenn að vera meðvitaðir um að yfirleitt eru það þeir þjóðfélagshópar sem minna mega sín sem verða harðast fyrir barðinu á áhrifum hættulegra efna. Þess vegna þurfi heilbrigðisstarfsmenn að gerast ötulir talsmenn réttlætis og jafnari skiptingar lífsgæða.

Í gær hófst heimsráðstefna FIGO í Vancouver í Kanada og þar verður væntanlega mikið rætt um þá ógn sem heilsu manna stafar af hættulegum efnum í umhverfinu í framhaldi af útkomu margræddrar skýrslu.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður