Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skaði bænda mikill

17.09.2012 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Sýslumannsembættið á Húsavík, lögreglan og almannavarnir kanna nú hvaða aðstoð þarf að veita bændum í Þingeyjarsýslum sem orðið hafa fyrir fjárskaða. Bændur glíma við mikið álag, auk þess sem margir sjá fram á tekjumissi.

Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, segir að Bjargráðasjóður fundi í dag og í kjölfarið verði stefnt að íbúafundum þar sem veitt verður áfallahjálp og upplýsingum miðlað. Þórarinn Ingi Pétursson , formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir að samtökin skipuleggi nú heimsóknir til bænda sem orðið hafa fyrir tjóni. Hann segir margar spurningar brenna á fólki en margir beri sig þó vel, þrátt fyrir álag síðustu daga.  

„Um leið og um hægist þá tekur veruleikinn við og maður þarf líka að horfast í augu við hann. Auðvitað er eðlilegt að sumir verði hálfbeygðir þegar fram í sækir en við þurfum þá líka að vera til staðar fyrir þá að hjálpa þeim í gegnum þann erfiða pakka sem framundan sé," segir Þórarinn.

Hann segir að ekki sé lengur leitað að fé í stórum stíl. Slátrun gangi ágætlega, fleiri dýralæknar séu komnir norður til þess að fylgjast með því fé sem grafið var úr fönn. Lömbin virðist jafna sig fljótt og hefur kjöt af þeim komið vel út. Engu að síður sé ljóst að skaði bænda sé mikill. Þórarinn segir fleiri hundruð fjár hafa drepist og líkurnar minnki á hverjum degi að fjöldi fjár spretti lifandi upp úr snjónum.