Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skaðabótamál vegna Glitnis

10.09.2013 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrjú skaðabótamál gegn slitastjórn Glitnis verða þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og næstu daga. Málin snúast um skaðabætur sem Lárus Welding, Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason fara fram á vegna málaferla slitastjórnarinnar gegn þeim í New York.

Mál Lárusar Welding var þingfest um hádegisbil í Héraðsdómi Reykjavíkur, í eftirmiðdaginn mætir lögmaður Pálma í héraðsdóm, og á fimmtudaginn verður mál Hannesar tekið fyrir. Þar að auki hefur endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Cooper einnig höfðað skaðabótamál, en það var þingfest í síðustu viku.

Öll þessi mál eiga það sameiginlegt að snúast um skaðabótakröfu vegna málaferla slitastjórnarinnar í New York; málaferla sem hófust vorið 2010 vegna meintra fjársvika í tengslum við skuldabréfaútgáfu Glitnis í Bandaríkjunum árið 2007. Alls var sjö stefnt fyrir dóm í New York; auk Lárusar, Pálma, Hannesar og Price Waterhouse Cooper voru í hópnum Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Sigurðsson. Ekki er ljóst hvort þau höfða skaðabótamál.

Lárus, Pálmi, Hannes og PWC fara fram á skaðabætur vegna útlagðs kostnaðar við málaferlin; samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þær kröfur í sumum tilfellum upp á tugi milljóna króna sem til dæmis féll til vegna útgjalda til lögmanna hér heima og í New York. Málin byggja á því sjónarmiði að ákvörðun slitastjórnar Glitnis, að höfða mál í Bandaríkjunum, hafi verið saknæm og ólögleg, og varði því skaðabætur.

Slitastjórnin heldur því fram á móti að rétt hafi verið að höfða málið vestanhafs. Í desember 2010 ákvað dómarinn í málinu að vísa því frá með þeim skilyrðum að stefnendur sættu sig við að það yrði höfðað hér heima.