Sjúkraliðar samþykktu með miklum meirihluta

25.03.2020 - 15:20
Mynd með færslu
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Mynd:
Félagar í Sjúkraliðafélags Íslands hafa samþykkt kjarasamning við sveitarfélögin með rúmlega 84 prósent greiddra atkvæða. Rúmlega 9 prósent greiddu atkvæði gegn samningnum og rúmlega 6 prósent skiluðu auðu. Þetta kemur fram á vefsíðu Sjúkraliðafélags Íslands. Á kjörskrá voru 259 en 160 tóku þátt. Það jafngildir tæplega 62 prósent þátttöku í atkvæðagreiðslunni. 

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélagsins, segir að um tímamótasamning sé að ræða. Mánaðarlaun hækka um 90 þúsund á samningstímanum, eins og kveðið er á um í lífskjarasamningunum.

„Til viðbótar við þessa beinu launahækkun á töflu var samið um styttingu á vinnutíma, og enn frekari stytting á vinnutíma vaktavinnufólks, þannig að 80% starf í vaktavinnu verður núna metið sem fullt starf.  Við þessa kerfisbreytingu hjá vaktavinnufólki munu laun þeirra hækka um 10% mv óbreytt vinnuframlag. En um 90% sjúkraliða eru í vaktavinnu og allflestir í hlutastarfi," segir Sandra.

Atkvæðagreiðsla um  kjarasamning Sjúkraliðafélagsins við ríkið stendur yfir fram á föstudag. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV