
Sjúklingi flogið til Akureyrar vegna veðurs
Því hafi hann og aðstoðarflugstjórinn metið það svo, að ófært væri að lenda á þeim brautum Reykjavíkurflugvallar, sem til boða stóðu, eftir að suðvesturbraut vallarins var lokað. Í Keflavík var opin braut, sem lá eilítið betur við ríkjandi vindátt, að sögn Þorkels. Þar var vindstyrkur hins vegar töluvert meiri og brautin einnig blaut, þannig að í raun var jafn ófært að fljúga þangað. Til að gæta fyllsta öryggis var því flogið með sjúklinginn til Akureyrar, þar sem hann fékk aðhlynningu á Fjórðungssjúkrahúsinu.
Þorkell segir að við ríkjandi veðuraðstæður hefði ekki verið neinum vandkvæðum bundið að lenda á suðvestur-brautinni í Reykjavík, sem lokað var í sumar. Það gildir í raun einnig um samskonar braut í Keflavík, sem lokað var fyrir nokkrum árum vegna lítillar notkunar.
Innanríkisráðuneytið fékk í haust Isavia til að kanna kostnað við að opna þá braut að nýju, þegar fyrir lá að suðvesturbrautinni í Reykjavík yrði lokað. Þrjár leiðir reyndust færar varðandi endurnýjun brautarinnar í Keflavík, og mun sú, sem helst þykir koma til greina, kosta ríkissjóð um 280 milljónir króna, samkvæmt mati Isavia. Ríkissjóður fékk 440 milljónir greiddar fyrir sinn hlut í landinu undir suðvesturbrautinni í Reykjavík, þegar Reykjavíkurborg keypti það. Að auki koma viðbótargreiðslur þegar og ef lóðir á því landi verða seldar. Engin framlög til endurbóta og -opnunar suðvestur-brautarinnar í Keflavík eru tilgreind í nýafgreiddum fjáraukalögum.