Sjúkdómurinn að sækja í sig veðrið hér á landi

Mynd: RÚV / RÚV
Vísbendingar eru um að COVID-19 faraldurinn sé að færast í vöxt hér á landi. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, á daglegum upplýsingafundi almannavarna sem hófst kl. 14. Þetta er nítjándi fundurinn sem haldinn er vegna COVID-19.

Alls eru 330 staðfest smit hér á landi, sem er fjölgun um 80 frá því í gær. Á veirufræðideild Landspítalans hafa verið staðfest 73 smit, eða um 15% af innsendum sýnum. Það er aukning frá tölunum sem kynntar voru í gær, en þá reyndust 10% sýnanna jákvæð.

Í skimun Íslenskrar erfðagreiningar hafa 33 af 4.500 sýnum reynst jákvæð, eða 0,7%, sem er svipað og verið hefur. Síðastliðinn sólarhring greindust 7 sýni jákvæð af 900 sýnum, sem gerir um 0,8%.

Þórólfur segir að verulegt stökk hafi hins vegar orðið í staðfestum smitum í sýnatökunni á veirufræðideildinni, sem bendi til þess að veiran sé að ná sér á flug.

Staðbundnar aðgerðir

Alls eru 3.700 manns á landinu í sóttkví og 530 manns hafa lokið sóttkví. Sjö manns eru á Landspítalanum, með staðfest smit, þar af einn á gjörgæslu. Hann er ekki í öndunarvél.

Þórólfur sagði það aðeins hafa verið tímaspursmál hvenær frekari aukning yrði á faraldrinum hér á landi. Fyrstu vísbendingar um aukningu hafi nú komið fram, og mikilvægt sé að fylgjast með því hvar sjúkdómurinn stingur sér helst niður.

Hugsanlega þurfi að grípa til staðbundinna aðgerða ef í harðbakkann slær, sagði Þórólfur. Það sé þó ekki eitthvað sem þurfi að gera alveg á næstunni.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði ljóst að töluverður pirringur væri kominn í marga landsmenn vegna ástandsins, auk þess sem margir séu óþolinmóðir. Þá séu alls konar sögusagnir á kreiki, meðal annars að í undirbúningi sé útgöngubann. Það sagði Víðir hins vegar að sé ekki rétt.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi