Sjöþúsundmilljón draumar um gott líf

Mynd: Marja Flick-Buijs / RGBStock

Sjöþúsundmilljón draumar um gott líf

08.06.2015 - 16:09

Höfundar

Yfirskrift alþjóðlegs dags umhverfisins 5. júní síðastliðinn var „Sjöþúsundmilljón draumar. Ein jörð. Neytum með gát“. Draumafjöld yfirskriftarinnar vísar til mannfjölda heimsbyggðarinnar, og þess að allir íbúar heimsins eiga sér væntanlega drauma um gott líf. Framhaldið um mikilvægi hófsemi.

Dagur umhverfissins hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1972 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að slíkur dagur skyldi haldinn á hverju ári. Tilgangurinn með degi umhverfisins er að efla vitund fólks um allan heim um mikilvægi þess að vernda náttúruna og hvetja til aðgerða í því skyni.

Í Samfélaginu í dag fjallar Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur um áherslur dagsins að þessu sinni, velsæld mannkyns, umhverfið og virkni hagkerfisins. 

------------------------------------------------------------------------  
Pistill StefánsDagur umhverfisins
Síðastliðinn föstudag var alþjóðlegur dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur eins og jafnan þann 5. júní allar götur frá árinu 1972 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að slíkur dagur skyldi haldinn á hverju ári. Tilgangurinn með degi umhverfisins er að efla vitund fólks um allan heim um mikilvægi þess að vernda náttúruna og hvetja til aðgerða í því skyni.

Á hverju ári er eitt að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna valið sem gestgjafi fyrir dag umhverfisins. Á síðasta ári var eyríkið Barbados aðalgestgjafi dagsins, enda var dagurinn þá helgaður áhrifum loftslagsbreytinga á lítil eyjasamfélög í þróunarlöndunum. Þetta árið var Ítalía hins vegar í gestgjafahlutverkinu, enda er litið á Ítalíu sem forgönguríki í baráttunni fyrir betri næringu og ábyrgari auðlindanotkun. Heimsýningin EXPO 2015 í Mílanó hefur verið og verður miðpunktur viðburða í tilefni dagsins.

Dagur umhverfisins 2015 er helgaður velsæld mannkyns, umhverfinu og virkni hagkerfisins, sem óhjákvæmilega á allt sitt undir ábyrgri stjórnun náttúrulegra auðlinda jarðar, sem eiga vissulega undir högg að sækja vegna ágangs sífjölgandi mannkyns. Hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNEP, er þetta orðað svo að mörg af vistkerfum jarðar rambi á barmi óafturkræfra breytinga vegna mikillar fjölgunar mannkyns og þess hvert stefnir í þróun hagkerfa. Ef núverandi mynstur í framleiðslu og neyslu haldist til ársins 2050 og ef jarðarbúar verði þá orðnir 9,6 milljarðar talsins eins og útlit er fyrir, munum við þá þurfa þrjár jarðir til að standa undir lifnaðarháttum okkar og neyslu.

Kjörorð dags umhverfisins 2015 er: „Sjöþúsundmilljón draumar. Ein jörð. Neytum með gát“, eða „Seven Billion Dreams. One Planet. Consume with Care“, eins og það hljómar í enskri útgáfu.  Ástæða þess að hér er talað um sjöþúsundmilljón drauma er sú, að um þessar mundir búa um sjöþúsundmilljónir manna í heimsþorpinu. Og að neyta með gát þýðir að lifa innan þeirra marka sem jörðin býður okkur til að tryggja heilbrigða framtíð þar sem draumar okkar geta ræst. Við þurfum ekki að eyðileggja jörðina til að skapa velsæld fyrir mannkynið. Sjálfbær lífsstíll felur það í sér að gera betur og meira fyrir minna. Sjálfbær lífsstíll byggir á vitneskjunni um að hagvöxtur þurfi ekki endilega að fela í sér vaxandi notkun náttúruauðlinda og aukin neikvæð áhrif á umhverfið.

Í pistli sem Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ritaði í tilefni af degi umhverfisins þetta árið bendir hann á að á hverjum degi þjáist um 900 milljón manns af hungri. Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi í heimi þar sem ekki væri til nógur matur, en sú sé alls ekki raunin, því að á jörðinni sé framleitt nóg af mat fyrir alla. Hins vegar sé þriðjungi þessa matar hent. Þannig fari árlega í súginn hvorki meira né minna en 1,3 milljarðar tonna af mat. Þessu sé hægt að breyta og það verðum við að gera, hvort sem litið er á málið frá siðferðilegu, efnahagslegu eða umhverfislegu sjónarmiði. Þetta snúist ekki bara um fjölda tonna sem fari í súginn, heldur kosti sóun matvæla um 680 milljarða Bandaríkjadala í iðnríkjunum og 310 milljarða í þróunarlöndunum. Í heildina samsvarar þetta rúmlega 130 þúsund milljörðum íslenskra króna eða rétt rúmlega 200-földum fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2015. Ef einhver skyldi vera búinn að gleyma hvaða tölur eru hér til umræðu, þá henda jarðarbúar sem sagt mat á hverju ári fyrir svipað háa fjárhæð og nemur fjárlögum íslenska ríkisins í 200 ár. Svo má líka benda á að um 10% af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Vesturlöndum stafar af ræktun matvæla sem aldrei eru borðuð. Til þess að framleiða allan þennan mat þarf um 1,4 milljarða hektara af landi, og þá erum við enn bara að tala um matinn sem við hendum. Þetta samsvarar túnbleðli sem er 14 sinnum stærri en allt Ísland. Og það er ekki eins og við getum ekki breytt þessu. Það er m.a. hægt að gera með því að vekja fólk til umhugsunar og með því að innleiða einhverja skynsemi í túlkun á „síðasta söludegi“ og öðrum slíkum merkingum. Svo má líka breyta reglum um það hvaða matvara teljist „gölluð“ og neytendur geta gert sitt með því að kaupa bara það sem þeir þurfa og nota afgangana sem til falla. Hér verða allir að leggja hönd á plóg. Og þegar við veltum því fyrir okkur hversu mikinn mat við þurfum, þá er hollt að hafa í huga að samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2014 eru 1.900 milljónir manna í heiminum í yfirþyngd, þ.e.a.s. með líkamsþyngdarstuðulinn BMI yfir 25. Þar af glíma 600 milljónir við offitu, þ.e.a.s. eru með BMI yfir 30.

Víða um heim hafa verið skipulagðar sérstakar uppákomur í tilefni af degi umhverfisins. Sem dæmi má nefna sérstakt átak á alþjóðaflugvellinum í Peking, þar sem komið hefur verið fyrir um 500 upplýsingaskjám, m.a. við öll brottfararhlið, þar sem fólk er hvatt til að taka eigin lífsstíl til endurskoðunar og taka upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu. Þetta verkefni mun standa yfir næstu fimm mánuði og í því taka þátt 10 af vinsælustu einstaklingunum í listalífi Kínverja, þ.á.m. leikkonan og fyrirsætan Li Bingbing, sem jafnframt er ein af velgjörðarsendi-herrum UNEP.

Eins og áður segir er Heimsýningin EXPO 2015 í Mílanó miðpunktur viðburða í tilefni dags umhverfisins þetta árið. Fyrrnefndur Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNEP, kom einmitt akandi þangað á föstudaginn á venjulegum FIAT fólksbíl sem búið var að breyta í rafbíl til að leggja áherslu á að maður þarf ekki alltaf að búa til nýja hluti, heldur er oft mögulegt að lagfæra þá gömlu þannig að þeir fari betur með auðlindirnar. Með Achim Steiner í för var Yaya Touré sem margir kannast sjálfsagt við sem leikmann knattspyrnuliðs Manchester City, en hann gegnir einmitt stöðu velgjörðarsendiherra rétt eins og Li Bingbing.

Íslendingar hafa líklega ekki orðið mikið varir við dag umhverfisins síðastliðinn föstudag, enda eru Íslendingar svo sérstakir að þeir ákváðu fyrir nokkrum árum að halda sjálfir upp á sérstakan alíslenskan dag umhverfisins 25. apríl í stað þess að halda daginn hátíðlegan 5. júní eins og aðrar þjóðir. Tuttugastiogfimmti apríl var vel valinn, enda er sá dagur fæðingardagur Sveins Pálssonar náttúrufræðings og stundum meira að segja sumardagurinn fyrsti í leiðinni. Hins vegar gæti það verið góð hugmynd að nota líka það tækifæri sem gefst 5. júní á hverju ári til að minna okkur sjálf og hvert annað á að Ísland er hluti af heiminum í umhverfislegu tilliti. Við erum kannski fá og smá en við erum samt ekki sérstakari en svo að við munum líða rétt eins og aðrir fyrir versnandi ástand náttúruauðlinda í heiminum og við berum líka rétt eins og aðrir fulla ábyrgð á þessu ástandi, sérstaklega þegar haft er í huga að við erum mun frekari á auðlindirnar en flestar aðrar þjóðir. Þess vegna þurfum við að fylgjast með því sem gerist í kringum okkur og axla okkar hluta af ábyrgðinni af því. Við eigum meira erindi við umheiminn en bara að segja honum frá því að öll hús á höfuðborgarsvæðinu séu hituð með jarðvarma, að þannig hafi það verið í næstum 80 ár og að þar fyrir utan segjum við bara allt ágætt, enda sé íslensk náttúra falleg og Íslendingar ótrúlega umhverfisvænir.

Ísland er vissulega eyland í landfræðilegu tilliti en vissulega ekki að neinu öðru leyti. Þess vegna þurfum við sem hér búum að neyta með gát, bæði á dögum umhverfisins og alla aðra daga, til þess að þessir sjöþúsundmilljón draumar geti ræst.