Sjónvarpsefni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara

Mynd: HBO / HBO

Sjónvarpsefni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara

11.01.2020 - 08:50

Höfundar

Watchmen er frábært sjónvarpsefni sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara, að mati sjónvarpsrýnis Lestarinnar. Þættirnir eru gríðarlega vel unnir og bæta við upprunalegu myndasögu Alans Moore auk þess að finna nýja vinkla til þess að skoða samfélag dagsins í dag.

Áslaug Torfadóttir skrifar:

Watchmen eftir Alan Moore, sem kom fyrst út í heftaröð á árunum 1986 -1987 og þykir ein áhrifamesta myndasaga allra tíma. Sagan gerist í hliðarheimi þar sem ofurhetjur eru til og hafa haft gríðarleg áhrif á mannkynssöguna, til dæmis unnu Bandaríkin Víetnamstríðið og Nixon sagði aldrei af sér í þessum heimi. Hópur ofurhetja kemst á snoðir um leynilegt ráðabrugg til þess að myrða ofurhetjur og snúa þannig bandarískum almenningi gegn þeim. Saman reyna þau að komast að því hver stendur á bak við áætlunina og hvers vegna. Þetta er auðvelda útskýringin á umfjöllunarefni Watchmen en sagan er bæði marglaga og flókin, satíra á ofurhetjudýrkun Bandaríkjamanna og viðbrögð við áhrifum og áhyggjuefnum kalda stríðsins. Moore, sem er goðsögn innan teiknimyndasagnaheimsins, hefur sjaldan verið betri og teikningar Dave Gibbons og John Higgins sitja í minninu löngu eftir lestur.

Þrátt fyrir þessi gríðarlegu áhrif og vinsǽldir átti Watchmen ekki greiða leið á hvíta tjaldið, en hún þótti lengi ein af þessum „ókvikmyndanlegu“ sögum. Margar tilraunir voru gerðar til þess að skrifa handrit en engin þeirra gekk upp. Allt þangað til árið 2009 þegar leikstjórinn Zack Snyder mætti til leiks og tókst loksins að koma sögunni í kvikmyndaform. Mynd Snyders er umdeild meðal Watchmen aðdáenda en það er ekki hægt að neita því að honum tókst allavega að gera þessari flóknu sögu eins sæmileg skil og hægt er á tveimur á hálfum klukkutíma. Það vakti því mikla eftirvæntingu þegar tilkynnt var sumarið 2017 að sjónvarpstöðin HBO hefði ráðið Damon Lindelof til þess að skrifa og leikstýra sjónvarpsseríunni Watchmen. Afraksturinn var svo frumsýndur í lok síðasta árs og fóru viðtökur fram úr björtustu vonum.

Mynd með færslu
 Mynd: HBO
Í heimi Watchmen hylja lögreglumenn andlit sín.

Damon Lindelof er ekki alls ókunnugur flóknum sögum og breyskum persónum en hann er maðurinn á bak við Lost og The Leftovers, sem báðar fjalla um stórar tilvistarlegar spurningar og flókna mannlega tilveru. Lindelof hefur verið aðdáandi Watchmen frá því að hann var unglingur og hafði tvisvar áður verið beðinn um að taka að sér verkefnið en segist hafa hafnað því vegna þess að hann hefði haft litlu við að bæta við mynd Snyders. En í þetta skiptið voru aðstæður öðruvísi, nógu langt væri liðið frá útgáfu myndarinnar og ástandið í Bandaríkjunum og heiminum öllum hafði vakið upp spurningar og vangaveltur sem tengjast þemum skáldsögunnar beint.

Lindelof fékk til liðs við sig fjölbreytt og fjölmenningarlegt lið handritshöfunda og saman tókst þeim að skapa nýjan Watchmen heim, ekki beint framhald heldur eðlilega framþróun sögunar. Watchmen sjónvarpsþættirnir gerast í Tulsa, Oklahoma, 30 árum eftir lokaatburði myndasögunnar og státar mestan part af splunkunýjum persónum sem hafa alist upp við þá breyttu heimssýn sem gjörðir hins mikilmennskubrjálaða Adrian Veidt hafði í för með sér. Leikarinn Robert Redford er forseti Bandaríkjanna, Víetnam er orðið 51. fylkið og lögreglumenn ganga með grímur af ótta við hefndaraðgerðir ofstækissinna í uppreisn gegn valdinu.

Ofurhetjur eru bannaðar en starfa ennþá í skjóli nætur og hinn almáttugi Dr. Manhattan, sá eini sem hefur raunverulega ofurkrafta, er enn í útlegð á Mars og bænir til hans um hjálp falla fyrir daufum eyrum. Við kynnumst Angelu Abar, sem lifir í raun þreföldu lífi en hún er bæði lögreglukona og ofurhetja og þarf því að fela sig bak við fjölmargar grímur. Líf hennar er sett á annan endann með komu dularfulls eldri manns sem afhjúpar leyndarmál sem snerta bæði Angelu og sögu Tulsa. Inní þetta fléttast svo fjölskylda Angelu, samstarfsmenn, persónur úr skáldsögunni, hryðjuverkasamtök og dularfullur milljónamæringur sem er að byggja einhvers konar risaklukku.

Eins og áður sagði eru Watchmen þættirnir viðbragð við vandamálum sem bandarískt samfélag stendur frammi fyrir í dag, vandamálum sem eiga sér hliðstæðu víðar um heim. Lindelof og félagar styðjast við raunverulega atburði til þess að minna áhorfendur á ríka sögu kynþáttahaturs og ofbeldis sem á sér ennþá stað í dag. Saga Angelu fléttast saman við sögu forfeðra hennar og sýnir okkur hvernig áföll erfast í ættliði, hvernig syndir feðranna enduróma í marga áratugi og við fáum aldrei umflúið örlög okkar. Sumt er einfaldlega skrifað í stjörnurnar en það sem við lærum á leiðinni er það sem skiptir máli og það sem við munum vonandi skilja eftir okkur fyrir komandi kynslóðir.

Mynd með færslu
 Mynd: HBO - Watchmen
Regina King í hlutverki Angelu Abar.

Handritshöfundateymið meðhöndlar þessi erfiðu málefni af miklu öryggi og sannar það í gegnum þáttaröðina að þau vita nákvæmlega hvað þau eru að gera og segja. Hvert smáatriði er útpælt og þjónar tilgangi sem býður uppá endalaust enduráhorf sem eiga bara eftir að bæta við upplifunina í hvert skipti. Einnig verður að minnast á firnasterkt leikaraliðið sem öll virðast alveg með á nótunum varðandi fyrirætlun Lindelof, og ljá persónunum líf með nákvæmum og blæbrigðaríkum leik sínum. Fremst í flokki er Regina King sem leikur Angelu. King er gríðarlega áhugaverð og sterk leikkona sem á að baki langan feril og hlaut loks þá viðurkenningu sem hún á skilið þegar hún hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í If Beale Street Could Talk árið 2018.

King hefur oft leikið sterkar kvenpersónur en sem Angela Abar er hún ekki aðeins sterk tilfinningalega heldur fær hún líka að sparka í rassa og lítur ekki út fyrir að hafa gert nokkuð annað alla tíð. King er límið sem heldur flóknum söguþræði og stóru persónugalleríi Watchmen saman og ferðalag hennar er slagæð þáttanna. Aðrir leikarar bera minni ábyrgð á herðum sér og virðast njóta þess til fulls að fá að leika lausum hala í þessum heimi. Þau sem skemmta sér mest eru greinilega Jeremy Irons sem hinn snarbilaði Adrian Veidt og Jean Smart sem FBI fulltrúinn Laurie Blake, en bæði henda sér af fullum krafti í absúrdismann og kaldhæðnina sem einkenna þeirra persónur. Tim Blake Nelson er einnig áhrifamikill sem Looking Glass, sérstaklega í fimmta þætti sem fjallar um hans baksögu.

Mynd með færslu
 Mynd: HBO
Jeremy Irons virðist skemmta sér konungla í túlkun sinni á Adrian Veidt.

Watchmen fengu sæti á flestum árslistum yfir bestu sjónvarpsþætti ársins, og jafnvel áratugarins, núna um áramótin og eru vel að því komnir enda eru hér á ferð gríðarlega vel unnir þættir sem ekki aðeins bæta við upprunalegu söguna heldur finnur nýja vinkla og leiðir til þess að skoða samfélagið útfrá því sem er að gerast í heiminum í dag. Þeir gleyma samt aldrei skemmtanagildinu og eru gríðarlega metnaðarfullir bæði sjónrænt og í hljóði en tónlistin eftir þá Trent Reznor og Atticus Ross spilar stórt hlutverk. Hvort sem þú hefur lesið eða séð Watchmen áður eða ekki þá eru Watchmen þættir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Svona á að gera sjónvarp.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Söguleg sápuópera sem erfitt er að slíta sig frá

Sjónvarp

Boðskapnum troðið ofan í kok áhorfenda

Sjónvarp

Nálægt því fullkomið sjónvarpsefni

Sjónvarp

Innsýn í daglegt líf hinna lifandi dauðu