Sjónarvottar sáu flóðið í Móskarðshnúkum og létu vita

29.01.2020 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - ruv
Hátt í hundrað björgunarsveitarmenn, lögreglumenn og slökkviliðsmenn eru ýmist komnir eða á leiðinni á vettvang þar sem tveir menn eru taldir hafa lent í snjóflóði í Móskarðshnúkum austan Esju um eittleytið í dag. Sjónarvottar sáu flóðið falla og létu vita að þeir óttuðust að fólk hefði lent í flóðinu.

Talið er að tveir hafi lent í flóðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að það styttist í að fyrstu viðbragðsaðilar komi á vettvang. Miklu máli skipti að komast sem fyrst að snjóflóðinu því tíminn leiki lykilhlutverk í leit eins og þessari.

Davíð segir að sjónarvottar hafi séð þegar snjóflóðið féll og það komi sér vel fyrir leitarstörf því þeir geti þá gefið upplýsingar um hvar þeir telji að fólkið hafi lent í snjóflóðinu.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Björgunarsveitir á leið á vettvang.
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Björgunarsveitir á leið á vettvang.
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV