Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjónarhóll barnsins í forgrunni HEIMA

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þreyta, hungur og kuldi er raunveruleiki fyrstu sólarhringa fylgdarlausra barna og ungmenna sem leita að alþjóðlegri vernd hér á landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtölum UNICEF á Íslandi við 31 barn sem kom hingað til lands á árunum 2016 til 2018 í leit að alþjóðlegri vernd. Viðtölin voru tekin vegna verkefnisins HEIMA, þar sem UNICEF skoðar móttöku barna út frá sjónarhorni barnanna sjálfra. Rætt var við börn á aldrinum 7 til 18 ára, auk ungmenna á aldrinum 18 til 21 árs.

Útlendingastofnun hefur tekið við umsóknum 770 barna á flótta, þar af yfir 70 sem komu ein til landsins. Aðstæður barnanna hér á landi hafa sætt gagnrýni og leiddi skýrsla rannsóknarstofnunar UNICEF í ljós brotalamir í móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd í öllum ríkjum Norðurlandanna í fyrra.

Verkefnið HEIMA vinnur UNICEF í samstarfi við Grallaragerðina. Auk barnanna er rætt við 12 foreldra og 40 starfsmenn sem vinna að móttöku barna. Einnig bættust við sögur barna sem aðrir höfðu safnað. Í viðtölunum komu fram vísbendingar um það sem betur má fara við móttöku barna. Áskoranirnar voru kynntar í þverfaglegri vinnustofu með starfsfólki 16 mismunandi fagaðila. Átta lausnir voru þróaðar í vinnustofunum. Meðal þeirra er móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn, heilsugæsla fyrir alla, upplýsinga- og félagsmiðstöð, listasmiðja og útivistarnámskeið. Hafnarfjarðarbær ætlar að taka þátt í áframhaldandi þróun tilraunaverkefnisins.

Skortur á upplýsingum

Börnin sem talað var við í tengslum við verkefnið lýstu því á áhrifaríkan hátt hversu fyrstu sólarhringar þeirra hér á landi eru erfiðir. Eftir því sem á líður þykir þeim skorta á upplýsingagjöf um þeirra stöðu og um íslenskt samfélag. Þá lýstu börnin bágum aðstæðum í búsetuúrræðum stjórnvalda og skorti á menntun, heilbrigðisþjónustu og tómstundum fyrstu mánuðina á Íslandi. Umsóknarferlið um alþjóðlega vernd hér á landi einkennist af bið og óvissu að sögn barnanna. Ekki var rætt við börnin um líðan þeirra á meðan, eða réttindi og samfélagið á Íslandi. Aðstæður fylgdarlausra barna reyndust svo hafa versnað eftir að ný lög tóku gildi sem leyfa barnaverndaryfirvöldum að vista börnin í húsnæði Útlendingastofnunar.

Sjónarmiðum barnanna var skipt niður í fimm flokka eftir viðtölin; að þau þurfi að skilja eða verða sjálfstæðari; þeim þurfi að líða eins og þau eigi heimili; þau þurfi meiri virkni eða finna fyrir minni einmanaleika; þau þurfi að hitta lækni; og þau þurfi umönnun þegar þau eru ein á ferð. Sjötti flokkurinn var svo tileinkaður foreldrum þar sem þeim þykir þau þurfa að geta hlíft barninu sínu.

Skýrslunni var skilað á borð félagsmálaráðuneytisins í júní.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV