Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjö lög um dauðann

Úr myndbandinu með laginu Lazarus af síðustu plötu Bowies, Blackstar - Mynd: Skjáskot / Lazarus - myndband

Sjö lög um dauðann

02.01.2018 - 10:48

Höfundar

Hinsta kveðja. Þetta margumtalaða andlát sem ekkert okkar sleppur við. Sum okkar fá langan aðdraganda og góðan undirbúningstíma fyrir eilífðina en hjá öðrum ber hann brátt að, eins og fall í hálku eða óvæntur og óútskýranlegur kláði.

Þrátt fyrir að dauðdagar séu jafn misjafnir og fingraför heimsins fáum við öll um það bil sömu spil á hendi í byrjun. Þessu mun ljúka og niðurtalningin er hafin.

Í tilefni þess að þáttaserían Ævi, sem framleidd var af RÚV, er núna aðgengileg á vefnum í heild sinni er nú í tveimur hlutum á vefnum fjallað um það tvennt sem er óumflýjanlegt fyrir alla sem mögulega getað lesið og hlustað á þessa umfjöllun. Það er fæðingin og dauðinn.

Þegar viðfangsefnið var tónlist um nýtt líf, börnin og fæðinguna, var ekki úr miklu að moða þegar kom að tónlist eftir karla. Einstaka karltónlistamenn hafa samið lög til barna sinna en þeir eru í minnihluta á móti konunum. Þessu er öfugu farið þegar kemur að dauðanum. Það er leitandi að lögum um dauðann eftir konur. Svo mjög raunar að í þessari umfjöllun er ekki eitt einasta lag eftir konu. Ástæðan er einfaldlega að þau lög sem fjalla um dauðann og eru eftir konur eða flutt af konum eru svo óþekkt að önnur miklu betri lög yrðu því miður að víkja í staðinn. Aðeins eitt lag kom til greina í raun og veru en það er lagið „Hurt“ með Christinu Aguilera. Það lag vék þó af listanum þegar í ljós kom að viðfangsefni þess lags, eftirsjáin þegar andlát föður sem aldrei hafði verið fyrirgefið í lifanda lífi bar að garði, var ekki frá brjósti söngkonunnar sjálfrar heldur tilbúningur einhvers bransafólks. Hannað til að snerta strengi hjá fólki í þessari aðstöðu.

Vonandi móðgast enginn herfilega yfir þessum sleggjudómi en svo virðist sem nýtt líf sé viðfangsefni kvenna en dauðinn viðfangsefni karla. Hvað segir það um okkur?

 

Leonard Cohen - You want it darker

Thanatophobia er fælni sem lýsir sér í tryllingslegum ótta við dauðann. Ósætti við hann sem getur ómögulega gert dauðann auðveldari þeim sem af fælninni er haldinn. En Leonard Cohen, sem á lagið sem hljómar hér undir var ekki hræddur við dauðann. Í titillaginu á hinstu plötu meistarans You Want it Darker, sem kom út 21. október 2016, segir hann berum orðum: „Ég er tilbúinn drottinn“ – og öll platan er í raun hinsta kveðja Cohen til lífsins. Til elskhuga sinna og aðdáenda. Fjölskyldu. Í fjórða laginu á plötunni sem ber heitið „Leaving the table“ segir Leonard Cohen að hann sé að standa upp frá borðinu, hann sé ekki lengur þátttakandi í leiknum. Nítján dögum eftir útgáfu plötunnar lést Leonard Cohen. Hinsta kveðjan var fullkomnuð. Frábær plata hafði litið dagsins ljós.

 

David Bowie - Lazarus

Leonard Cohen var samt ekki eini listamaðurinn til að kveðja með stíl árið 2016. David Bowie sendi frá sér sína hinstu plötu á afmælisdegi sínum 8. janúar. Platan heitir Blackstar, dauðastirnið. Tveimur dögum síðar lést David Bowie úr lifrarkrabba. Við upptökur plötunnar vissi hann raunar að komið væri að kveðjustund og platan ber þess skýr merki.

Í myndbandi lagsins „Lazarus“ sést Bowie liggja banaleguna á sjúkrarúmi, kljást við umhverfi sitt. Tveir dagar nægðu aðdáendum söngvarans og tónlistarspekúlöntum ekki til að geta í eyðurnar um hvað væri yfirvofandi hjá söngvaranum en að honum gengnum hóf heimsbyggðin að rýna í texta plötunnar. Meðal annars síðasta hluta Lazarusar:
„Á þennan veg eða annan
veistu að ég verð frjáls
rétt eins og söngfugl
Er það ekki í mínum anda?“

Bowie var alltaf meistari innkomunnar. Í þetta sinn var útgöngumarsinn meistarastykki.

 

Blue Oyster Cult - (Don't fear) The Reaper

En semsagt, óttinn við dauðann. Ég vann einu sinni með manni sem ætlaði ekki að deyja. Hann hélt því fram að á okkar ævi yrði tæknibyltingin svo mikil að hann þyrfti ekki að velta dauðanum fyrir sér. Hann var hræddur við dauðann.

Mér fannst alltaf liggja í loftinu að óttinn við dauðann væri ósætti hans við lífið. Dauðinn mætti ekki banka að dyrum þegar lífið hafði ekki orðið stórbrotnara en raun bar vitni.

Lagið „Don‘t Fear the Reaper“ eftir hljómsveitina Blue Oyster Cult fjallar alfarið um þennan ótta. Lagið heitir beinlínis, ekki óttast sláttumanninn. Söngvari sveitarinnar, Buck Dharma, skrifaði textann eftir vangaveltur sínar um það að deyja ungur. Þegar maður er ungur er erfitt að sjá fyrir sér langa framtíð og í einhverri unglinga melankólíu fullyrða því margir að þeir viti að þeir verði ekki langlífir. Svo koma börnin og makinn og allt í einu skiptir ekkert meira máli en að halda lífi sem lengst. Texti lagsins hefur verið gagnrýndur af sumum sem túlka lagið þannig að það upphefji dauðann, hvetji jafnvel til sjálfsvígs en textahöfundurinn segir það fjarri lagi. Raunar fjalli það frekar um ást sem nær út yfir gröf og dauða.

 

Pink Floyd - The Great Gig in the Sky

Annað lag sem fjallar lauslega um óttann við dauðann er „Great Gig in the Sky“ með Pink Floyd. Sumir hvá eflaust núna enda er enginn texti í laginu. Eða hvað?

Í blábyrjun lagsins heyrist húsvörðurinn í Abbey Road hljóðverinu segja „Ég óttast ekki dauðann. Hann mætti koma hvenær sem er. Mér er sama. Hvers vegna ætti ég að vera hræddur við dauðann? Það er enginn ástæða til þess – þú verður að fara einhverntíman.“

Tilvitnunin í húsvörðinn er afrakstur viðtals sem hljómsveitameðlimir tóku upp við starfsfólk hljóðversins þar sem þeir spurðu einfaldlega hvort fólk væri hrætt við dauðann. Meginhluti lagsins er sunginn af söngkonunni Clare Torry sem var beðin um að nota rödd sína sem hljóðfæri í laginu, án allra orða. Eftir fyrstu tilraun var hún beðin um að gefa verulega í, sagt að lagið fjalli um dauðann og röddin megi endurspegla það.

 

Nick Cave & The Bad Seeds ásamt PJ Harvey - Henry Lee

Nick Cave gaf, árið 1996, út heila plötu sem fjallaði um dauðann. Nánar tiltekið morð frá öllum hugsanlegum sjónarhornum. Platan Murderballads hefur að geyma ýmist frumsamin lög eða tökulög sem Cave gerði að sínum og þar á meðal er lagið „Henry Lee“.

Lagið er upprunalega skoskt þjóðlag, frá átjándu öld og segir frá ungum manni sem segir konu sem er barnshafandi eftir hann að hann sé í raun og veru ástfanginn af annarri konu. Sú barnshafandi vill kveðjukoss og nýtir tækifærið og stingur Henry mörgum sinnum þar til hann deyr. Því næst kastar hún honum í nærliggjandi vatn og segir: „Liggðu þarna Henry Lee, því stúlkan sem þú elskar getur beðið að eilífu eftir að þú komir heim.“

Upp í hugann kemur setning frá leikskáldinu William Congreve sem var uppi á sautjándu öld: „Helvíti býr ekki yfir sömu heift og svikin kona.“

Já svikin kona. Söngkonan PJ Harvey syngur lagið með Nick Cave en þau þekktust lítið fyrir tökur á myndbandi við lagið. Myndbandið er einfalt. Þau tvö, ótrúlega lík hvoru öðru með svart axlasítt hár í jakkafötum og hvítum skyrtum, faðmast, dansa og syngja. Í myndbandinu má sjá þau tvö falla raunverulega fyrir hvoru öðru algjörlega óvænt. Óæft og óafturkræft. Og eftir sat eiginkona Cave með sárt ennið.

 

Queen - The Show Must Go On

Þetta innslag hófst á svanasöng tveggja merkra listamanna og því ekki úr vegi að bæta einum við. Þegar Freddy Mercury, söngvari the Queen var orðinn visinn af eyðni árið 1990, var lagið tekið upp en Brian May gítarleikari hljómsveitarinnar hafði lýst áhyggjum sínum af því að Mercury réði ekki við lagið, svo máttfarinn var hann.

Lagið kom út sex vikum fyrir dauða söngvarans og var fyrst spilað opinberlega á minningartónleikum um söngvarann þar sem Elton John tók lagið í stað Mercury. Texti lagsins er nokkuð skýr: „Sýningin verður að halda áfram, það kann að vera að hjarta mitt sé að gefa sig, farðinn flagnar af en brosið fer hvergi, því sýningin verður að halda áfram.“

Hljómsveitin Queen á raunar fleiri lög um dauðann. Lagið „Who Wants to Live Forever“ eða „Hver vill lifa að eilífu“ er samið fyrir kvikmyndina Highlander og er kannski tilvalin gjöf til þeirra sem óttast sláttumanninn, halda að tæknin bjargi þeim frá dauðanum, og vilja öðlast eilíft líf. Án þess að velta því fyrir sér hvert innihald þess lífs verður. Er ekki passlegt að ná að lifa góðu lífi fram að gamals aldri? Hver vill vera eilífur?