Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjö eftir á svarta listanum

25.05.2018 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Evrópusambandið fjarlægði í dag Bahamaeyjar og Sankti Kitts og Nevis af svörtum lista yfir skattaskjól. Nú eru sjö eftir á listanum sem í upphafi innihélt 17 ríki og umdæmi. Listinn var gerður opinber í desember 2017. Hann var settur upp í kjölfar hneykslismála tengdum skattaskjólum á borð við Panama-skjölin. 

Í dag voru ríkin tvö í Karíbahafi fjarlægð af listanum eftir að hafa skuldbundið sig gagnvart Evrópusambandinu til að bæta ráð sitt. Þau hafa nú verið færð yfir á gráa listann, lista yfir ríki sem hafa lofað að gera betur.

Í janúar voru átta ríki tekin af svarta listanum og færð yfir á þann gráa, þar á meðal Panama. Vakti það mikla reiði á meðal hópa aðgerðarsinna. Vladislav Goranov, fjármálaráðherra Búlgaríu og forseti efnahags- og fjármálaráðs Evrópusambandsins segir fjölda ríkja sem tekin hafa verið af listanum sýna að þessi aðgerð sambandsins sé vel heppnuð.

Umdæmin sjö sem eftir eru á svarta listanum eru Gvam, Namibía, Samóa, Ameríska-Samóa, Trinídad og Tóbago ásamt Bandarísku Jómfrúareyjunum.