Sjö ára svisslenskur drengur gekk á Hvannadalshnjúk ásamt föður sínum og tveimur eldri systkinum fyrr í mánuðinum. Ekki er vitað til þess að neinn yngri hafi gengið á tindinn. Fjölskyldan kleif Hnjúkinn á sjö klukkustundum en hann er hæsti tindur landsins, 2109 metrar.
Ganga á tinda um allan heim
Noe Schwörer, sjö ára, býr á skútu ásamt fjölskyldu sinni sem siglir um heimsins höf til að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Þá hjóla þau um löndin sem þau heimsækja og klífa hæstu tinda landa og heimsálfa. Því hikaði fjölskyldan ekki við að arka upp á Hvannadalshnjúk. Með í för, auk Noe, var fjölskyldufaðirinn Dario, sem er fjallaleiðsögumaður, Salina tólf ára og Andri níu ára.
Plastpokar í stað legghlífa
Dario segir ferðina hafa gengið vel. Eftir að hafa tjaslað saman gönguskónum með tonnataki, krakkarnir orðið sér úti um plastpoka í stað legghlífa og fengið lánaðar fjórar ísaxir, gekk hópurinn af stað. Dario segir þau hafa lagt af stað klukkan tíu laugardagskvöldið 1. júlí og verið komin á tindinn klukkan fimm að morgni. Þau voru svo komin aftur niður um klukkan tíu að morgni 2. júlí.
„Allt var bara hvítt“
Noe segir ferðina hafa verið góða, ekki of langa, en að þegar tindurinn nálgaðist hafi hann alltaf færst undan. Það hafi verið leiðinlegast. Dario segir að veðrið hafi verið gott framan af en versnað þegar leið á gönguna og Noe bætir við að það hafi allt litið eins út: „Allt var bara hvítt.“ Dario segir að krakkarnir hafi ekki látið sér leiðast á leiðinni. Þótt honum hafi þótt svokölluð Slétta ansi þreytandi hafi krakkarnir verið í góðu skapi og sungið hástöfum. Þau hafi sagt hvert öðru sögur á leiðinni og rætt öryggismál og hvernig þau gætu bjargað hvert öðru ef eitthvað kæmi upp á. Krakkarnir báru allt sitt dót, föt, vatn og mat og fjölskyldan stoppaði tvisvar á leiðinni upp en dreif sig svo niður. Renndi sér meðal annars á plastpokum hluta leiðarinnar.
Yngstur til að ganga á tindinn
Staðkunnugir sem fréttastofa leitaði til vita ekki til þess að nokkur yngri en Noe hafi gengið á Hnjúkinn. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, sem bjóða uppá ferðir á Hnjúkinn, þá er strangt aldurstakmark hjá þeim 16 ár. Í undantekningatilvikum fái örlítið yngri unglingar að ganga á Hnjúkinn í svokölluðum sérferðum. Ástæða aldurstakmarksins er hversu krefjandi gangan er, bæði líkamlega og andlega. Þá sé mikilvægt að vera með búnað sem hentar börnum.