Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjávarverur bjuggu eitt sinn í Sahara

14.07.2019 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Christoph Rohner - Wikimedia Commons
Steingervingar sem fundust í Malí gefa til kynna að sjávarverur hafi eitt sinn búið þar sem nú er eyðimörkin Sahara. Samkvæmt nýrri grein á vef Náttúruminjasafns Bandaríkjanna voru sæsnákar og leirgeddur á meðal dýra sem bjuggu í sjónum sem náði yfir 3000 ferkílómetra svæði og var 50 metrar þar sem hann var dýpstur.

Rannsókn vísindamannanna byggist á breskum könnunarleiðöngrum allt aftur til 9. áratugarins. Meðal þess sem hefur fundist hingað til, og ekki verið greint frá áður, eru steingervingasafn og skjaldbökuskeljar. Fyrir 50-100 milljón árum var sjórinn heimili fjölmargra rándýra, þar á meðal krókódíla, annarra skriðdýra og fiska. Á þeim tíma var svæðið þar sem nú er Malí líkara löndum á borð við Púertó Ríkó og þar þrifust hitabeltistré og lindýr á sjávarbakkanum.

Sannar að fordæmi eru fyrir loftslagsbreytingum

Steingervingarnir sem fundust í Sahara gefa vísbendingu um hversu fjölbreytt dýralífið þar var. Meðal þess sem fornleifafræðingar fundu voru risavaxnir sæsnákar og gríðarstórar leirgeddur. Líklegt er að dýrin hafi þjáðst af risavexti. Maureen O'Leary, fornleifafræðingurinn sem stýrði rannsókninni, segir í viðtali við breska blaðið Guardian að mögulega sé risavöxturinn svokallaður eyjarisavöxtur. Orðið er notað yfir ofvaxin dýr sem búa á litlum eyjum og þróa með sér mjög stóra líkama, mögulega af því að þar eru annaðhvort fá rándýr eða miklar auðlindir eða bæði. Mögulegt er að dýrin sem eitt sinn bjuggu í sjónum í Sahara hafi lifað við svipaðar aðstæður.

O'Leary segir enn fremur að það að Sahara var eitt sinn undir vatni gefi til kynna að fordæmi séu fyrir loftslagsbreytingum. „Vonandi er hægt að nýta þessi sögulegu dæmi til þess að fá fólk til að sætta sig við að það sem vísindamenn segja er ekki aðeins satt heldur eru til söguleg dæmi sem sýna að jörðin hefur áður gengið í gegnum umtalsverðar breytingar.“ Mikilvægt sé að átta sig á að það sem á sér stað á jörðinni í dag sé ekki fyrstu loftslagsbreytingarnar. 

Ástandið í Malí gerir vísindamönnum erfitt fyrir 

En eins og staðan er nú er ómögulegt fyrir fornleifafræðinga að komast til Malí. Eftir að Túaregar gerðu uppreisn gegn Malí-stjórninni fyrir sjö árum hafa vísindamenn ekki getað farið á svæðið til að grafa upp og rannsaka betur. Að sögn O'Leary er mikið af steingervingum undir sandinum í Malí og þörf á umfangsmiklum fornleifauppgreftri. 

„Það er hræðilegt að þetta skuli gerast í landi með jafn ríka arfleifð,“ segir O'Leary, sem vonast til þess að með greininni takist að vekja athygli á því að í Malí sé ýmislegt mikilvægt og áhugavert sem fólk viti ef til vill ekki af. „Það er gífurlega mikið vísindastarf sem á eftir að vinna þar og það er ómögulegt að svo stöddu.“

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV