Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sjávarútvegsráðherra fundar með deilendum

15.02.2017 - 15:55
Mynd: Skjáskot / RÚV
Karphúsinu hefur verið lokað og algjört fjölmiðlabann ríkir vegna sjómannaverkfallsins. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því formlegur fundur hefjist í deilunni síðdegis. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra segist ætla að hitta deilendur á fundi í kvöld.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar munu sjómenn knýja áfram á um skattafslátt á fæðispeningum. Heimildarmenn fréttastofunnar lýstu ákveðinni bjartsýni um að möguleiki sé á að samningar takist þótt og snemmt sé að fullyrða nokkuð um það.

Fréttastofu er ekki kunnugt um fyrri fordæmi þar sem ráðherrar hafa mætt á samningafundi hjá ríkissáttasemjara til að liðka fyrir í kjaradeilum.

Til í að skoða mismunandi greiðslur

Þorgerður Katrín segist reiðubúin til að skoða almennar aðgerðir en ítrekar fyrri orð um andstöðu við sértækar aðgerðir. „Eitt skal yfir alla ganga. Ef það er einhvers staðar mismunum í kerfinu er sjálfsagt að fara yfir það en ég tel mikilvægt að til lengri og skemmri tíma litið komum við upp einföldu skattkerfi sem virkar og er gagnsætt með upplýsingar fyrir alla.“ Hún segist hafa fengið ábendingar um hvernig greiðslum til starfsfólks sé háttað. Sumir fái dagpeninga en aðrir bara útlagðan kostnað. Það sé nokkuð sem sé sjálfsagt að skoða.

„Ríkinu verður ekki stillt upp við vegg“

Þorgerður Katrín segir að afnám sjómannaafsláttar 2009 hafi verið rétt skref í átt að einföldun skattkerfisins. „Við ætlum að hittast í kvöld, í fyrsta sinn. Við ætlum að ræða saman og skoða þetta. Ég dreg ekki dul á að það sem ég hef heyrt í fjölmiðlum og heyrt frá þeim er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðanna. Þær útfærslur sem ég hef heyrt eru ekkert annað en það,“ segir ráðherra.

„Það er líka algjörlega skýrt af minni hálfu að mér finnst algjörlega ófært fyrir hönd stjórnvalda eða ríkisvaldsins að það séu þriðju aðilar úti í bæ sem skuldbinda ríkið, skattgreiðendur þessa lands, upp á mörg hundruð milljónir króna án þess að tala við það. Þess vegna er gott að menn ræði saman núna, þegar menn vonandi eru að  fara að ná saman með samningum. Ríkinu verður ekki stillt upp við vegg í þessari deilu.“

„Við munum gera allt sem hægt er að gera og skoða ef hægt er að túlka það undir almennar aðgerðir sem nýtist fleiri stéttum en einum,“ segir Þorgerður. „En ég vil ekki að við greiðum niður launakostnað útgerðarinnar.“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV