Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn braut fjarskiptalög

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn braut fjarskiptalög í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar í haust með því að hringja í mann sem var bannmerktur í símaskrá og kannaðist ekki við að vera skráður í flokkinn. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar, sem telur hringinguna vera brot á ákvæði fjarskiptalaga um óumbeðin fjarskipti.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá 12. júní er rakið að kvartandinn hafi fengið símtal frá flokknum upp úr miðjum október, tjáð þeim sem hringdi að hann væri ekki flokksmaður og í kjölfarið hafi hann verið afskráður úr flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hélt því fram í svörum sínum til stofnunarinnar að kvartandinn hefði verið skráður í flokkinn árið 2004 en það sagðist viðkomandi alls ekkert kannast við.

Þrátt fyrir kröfu Póst- og fjarskiptastofnunar þar um gat flokkurinn ekki framvísað gögnum um skráninguna fyrir fjórtán árum. Í svari flokksins sagði að þrátt fyrir ítarlega leit hefði inntökubeiðnin ekki fundist, hvorki á skriflegu né rafrænu formi, og ekki sé útilokað að um mistök hafi verið að ræða.

„Að mati PFS verður að gera þá lágmarkskröfu til aðila sem stunda markaðssetningu sína í formi fjarskiptasendinga að þeir varðveiti samþykki móttakanda sem þeir byggja rétt sinn til sendingarinnar á. Getur slíkur aðili ekki vísað til þess að gögn finnist ekki eða að ætlað samþykki fyrir upplýsingamiðlun hafi hugsanlega glatast, og með þeim hætti réttlætt fjarskipti sem lagt er bann við,“ segir í ákvörðuninni, sem er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála innan fjögurra vikna frá 12. júní.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV