Sjálfstæðisflokkurinn á móti - „Hvað með það?"

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Alþingi felldi í gær tillögu um að tekið yrði á dagskrá frumvarp Pírata um að stjórnarskrárbreytingar verði bornar undir þjóðina. Um var að ræða að fá samþykkt breytingarákvæði, sem nýtt þing hefði þurft að staðfesta. „Þessi breyting sem var lögð til er breyting á stjórnarskrá – snýst um það hvernig sé hægt að breyta stjórnarskrá,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann undrast að afstaða Sjálfstæðisflokksins ráði ferðinni. „Hvað með það?"

„Tilgangur tillögunnar sem Píratar lögðu fram er sá að það sé hægt að breyta stjórnarskrá með því að vísa málinu til kjósenda. Þannig að þeir geti afgreitt málið, frekar en tvö þing með kosningar á milli. Það er þannig samkvæmt núgildandi stjórnarskrá að þegar breytingar eru samþykktar á henni er þing rofið á sama tíma. Þannig að það er í raun og veru einungis hægt að gera stjórnarskrárbreytingar í lok kjörtímabils.“ Helgi Hrafn segir að þetta skýri hvers vegna frumvarp Pírata hafi komið seint fram. Ekki hafi verið um aðra tímasetningu að ræða. Þeir sem mæltu gegn stjórnarskrármáli Pírata sögðu tímann of nauman, ekki væri hægt að afgreiða málið á hlaupum í prófkjörsbaráttu, það væri illa undirbúið, ekki væri nægileg samstaða. Píratar voru meira að segja beðnir um að hætta að setja sig á háan hest. Píratar telja hinsvegar mikilvægt að hraða umsköpun íslenskra stjórnvalda í anda tillagna Stjórnlagaráðs sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu, skapa meiri festu í stjórnmálum, og auka lýðræðislegt aðhald frá fólkinu í landinu. Það verði best gert með því að stjórnarskrá beri það með sér að valdið sé komið frá fólkinu – ekki kónginum eða þeim sem tóku við hlutverki hans.

Helgi Hrafn Gunnarsson segir að tillaga Pírata hafi ekki verið flókin, hún byggist á langri umræðu í stjórnarskrárferlinu, og þingið hefði vel getað afgreitt hana á fáeinum dögum. Píratar hafi verið til viðræðu um þröskulda varðandi þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem margir vilji herða á. „Ég kaupi ekki þessi rök að fólk hafi þurft meiri tíma til að skoða þetta. Þetta er búið að liggja mjög lengi fyrir og er tekið úr tillögum Stjórnlagaráðs sem eru margra ára gamlar.“ Helgi Hrafn hefur verið utan þings síðasta árið en er tilbúinn að gefa kost á sér aftur til þingmennsku. Andstaða Sjálfstæðismanna kom honum ekki á óvart en hann segist ekki átta sig á afstöðu VG, sem stóð gegn því með Sjálfstæðismönnum að málið kæmist á dagskrá. Helgi Hrafn segist ekki koma auga á efnisleg rök hjá VG. Nægt svigrúm hafi verið til að vinna málið áfram. „Eina mótbáran sem ég heyrði við því var að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki sáttur við það! Ég spyr bara: Hvað með það? – svona í anda Brynjars Níelssonar.“ Helgi Hrafn sagði á Morgunvaktinni að þegar menn einblíni á að skapa sátt um nýja stjórnarskrá gleymist að ekki sé sátt um núgildandi stjórnarská.

„Þetta snýst í grundvallaratriðum um það að við áttum að hætta að heita konungsríki og verða lýðveldi. - Valdið kemur neðan frá og rennur upp á við, en ekki öfugt. Það er grundvallarmunur á nálguninni við þessar tvær stjórnarskrár.“

 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi