Sjálfstæðisflokkur og Píratar stærstir

28.07.2016 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar mælast með nánast jafnmikið fylgi í skoðanakönnun Gallup, fylgi Pírata dalar aðeins frá síðustu könnun. Fylgið við ríkisstjórnina helst óbreytt.

Heilt yfir eru litlar breytingar á fylgi flokkanna á milli mánaða. Píratar mælast með liðlega 25 prósenta fylgi, en mældust með 28 prósent í síðasta mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með liðlega 26 prósent. Framsóknarflokkurinn mælist með tæp 10 prósent og Vinstri græn með tæp 17 prósent. Fylgi Samfylkingarinnar er samkvæmt könnuninni 8 prósent og Viðreisn mælist með 9 prósent. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist rúmlega 4 prósent.

Helsta breytingin er að fylgi Pírata minnkar um tæplega þrjú prósent. Aðrar breytingar eru tölfræðilega ómarktækar. Einnig var spurt um fylgið við ríkisstjórnina. Það helst óbreytt frá því í júní eða 37 prósent.

Rúmlega 10 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Sjö prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Niðurstöður eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. júní til 26. júlí. Heildarúrtaksstærð var 5.734 og þátttökuhlutfall var 54,0 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,8-1,7 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi