Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sjálfbærnimarkmiðin krefjast samvinnu

21.03.2016 - 16:23
Mynd: Youtube / Youtube
Nú er um það bil hálft ár síðan Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt og nú þegar er víðtækt alþjóðlegt samstarf einkageirans, háskólasamfélagsins og stjórnvalda komið í gang, enda dugir ekkert minna til að reyna að breyta markmiðunum úr óskalista í orðinn hlut. Stefán Gíslason fjallaði um það í pistli sínum í Samfélaginu á Rás 1 í dag.

Sjálfbærnimarkmiðin

Þann 25. september á síðasta ári samþykktu leiðtogar 193 þjóðríkja sérstök sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna sem gilda eiga fyrir heimsbyggðina alla fram til ársins 2030. Á ensku kallast markmiðin Sustainable Development Goals, skammstafað SDG. Sjálfbærnimarkmiðin taka við af Þúsaldarmarkmiðunum sem sett voru árið 2000 og giltu til ársins 2015. Þeim er m.a. ætlað að uppfylla það sem ekki tókst að gera á gildistíma Þúsaldarmarkmiðanna, en samt eru þessi markmið annað og meira en framlenging á þeim gömlu. Sjálfbærnimarkmiðin hafa víðtækari skírskotun, bæði hvað innihaldið varðar og það að þau ná ekki aðeins til þróunarríkja eins og Þúsaldarmarkmiðin gerðu, heldur til allra ríkja heims.

Langtímahugsun

Mörgum finnst sjálfsagt langt þangað til árið 2030 rennur upp og því nægur tími til að huga að eftirfylgni sjálfbærnimarkmiðanna. En í raun og veru er tíminn naumur, því að verk sem varða heilar þjóðir, eða jafnvel allar þjóðir sameiginlega, verða ekki unnin í einu vetfangi. Meðal þess sem þarf að gera er t.d. að binda enda á sára fátækt, vinna bug á ójöfnuði og óréttlæti og koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þetta eru engin áhlaupaverk. Með þetta í huga er því ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvernig þjóðir heims ætli sér að standa að uppfyllingu markmiðanna.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna

Ekki bara árámótaheit

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp að Sjálfbærnimarkmiðin eins og þau voru samþykkt í september í fyrra, samanstanda ekki bara af einhvers konar áramótaheitum. Þarna var á ferðinni þykk skýrsla með 17 aðalmarkmiðum og 169 undirmarkmiðum sem eru hluti af enn stærri pakka, sem kallaður er Dagskrá til 2030 og hefur yfirskriftina Að umbreyta heiminum.

Auk markmiðanna og undirmarkmiðanna er þar að finna sameiginlega framtíðarsýn, grunnreglur og fyrirheit, auk lýsinga á því hvernig vinna skuli að framfylgd markmiðanna og hvernig eigi að fylgjast með því að áætluninni sé fylgt í einstökum ríkjum, á einstökum svæðum og á heimsvísu. Dagskráin í heild skiptist í 91 grein, og markmiðin og undirmarkmiðin eru í raun bara ein grein af þeim, nánar tiltekið grein nr. 59.

Norðurlönd hafa samstarfsvettvang

Í dag er liðið rétt um það bil hálft ár síðan Sjálfbærnimarkmiðin voru samþykkt og nú þegar er mikil vinna komin í gang út um allan heim til að reyna að breyta markmiðunum úr óskalista í orðinn hlut. Ein viðleitnin í þá átt er að stofnuð hafa verið tengslanet í einstökum heimshlutum, en tilgangurinn með slíkum tengslanetum er að skapa sameiginlegan vettvang þar sem stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur í viðkomandi heimshluta geta borið saman bækur sínar og lagt á ráðin um sameiginleg verkefni í anda sjálfbærnimarkmiðanna.

Eitt slíkt tengslanet var einmitt stofnað með formlegum hætti í Gautaborg í lok febrúar, en þar með varð til sérstakur samstarfsvettvangur fyrir eftirfylgni sjálfbærnimarkmiðanna í Norður-Evrópu, nánar tiltekið á Norðurlöndunum. Þetta er kallað á ensku Sustainable Development Solutions Network for Northern Europe, skammstafað SDSN-NE.

Háskólarnir í Gautaborg, þ.e.a.s. Háskólinn í Gautaborg og Chalmers, hafa tekið að sér að vista þennan samstarfsvettvang og þess vegna var stofnfundur hans einmitt haldinn í Gautaborg eins og fyrr segir.

Það að SDSN-NE sé vistað í háskólum þýðir ekki að þetta séu einhver einangruð samtök háskólamanna. Þannig voru forsvarsmenn stórfyrirtækja áberandi á stofnfundinum, en þar fluttu m.a. ávörp forstjórar fyrirtækja á borð við Volvo, Scania, Ericsson og Unilever, svo eitthvað sé nefnt, að ógleymdum Stefáni Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og Ísabellu Lövin, ráðherra þróunarsamvinnu í sænsku ríkisstjórninni. Af máli forstjóranna var ljóst að stórfyrirtækin taka mjög alvarlega það hlutverk sitt að stuðla að sjálfbærri þróun og af máli ráðherranna mátti ráða að sænska ríkisstjórnin muni ekki heldur láta sitt eftir liggja.

Gríðarlega víðtækt samstarf

Norður-Evrópuvettvangurinn SDSN-NE á sér hliðstæður í öðrum heimshlutum og öll þessi tengslanet tengjast í því sem kallað er SDSN Global, sem stofnað var árið 2012 að tilstuðlan Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Eins og staðan er í dag er búið að stofna svæðisbundin SDSN tengslanet á Amasónsvæðinu, í Andesfjöllum, á Ástralíu- og Kyrrahafssvæðinu, í Karabíska hafinu, við Stóru vötnin í Afríku, á Miðjarðarhafssvæðinu, á Sahelsvæðinu sunnan Sahara, í Suður-Asíu og í Suðaustur-Asíu, auk fyrrnefnds tengslanets í Norður-Evrópu. Unnið er að stofnun hliðstæðra tengslaneta í öðrum heimshlutum.

Þar fyrir utan hefur verið stofnað til nokkurra landsneta, ef svo má að orði komast, en þeim er ætlað að tengja saman háskóla, rannsóknarstofnanir, félagasamtök, atvinnulíf og aðra þá aðila sem búa yfir þekkingu sem nýtist í viðleitninni við að stuðla að sjálfbærri þróun innanlands og á heimsvísu. Ætlunin er að þessir aðilar vinni saman að því að vekja fólk til meðvitundar um sjálfbærnimarkmiðin, styðja við frumkvæði sem stuðlar að sjálfbærri þróun, hvetja til menntunar til sjálfbærrar þróunar og aðstoða stjórnvöld við að átta sig á viðfangsefninu.

Sjálfbærnivísitalan

Allir sem einhvern tímann hafa reynt í alvöru að ná settum markmiðum vita að nauðsynlegt er að mæla árangurinn reglulega til að átta sig á hvort vinnan sé á réttri leið og hvort tímaáætlanir standist. Þess vegna er unnið að því hörðum höndum þessa dagana að skilgreina mælikvarða sem notaðir verða til að fylgjast með því hvernig gengur að uppfylla sjálfbærnimarkmiðin, auk þess sem unnið er að því að koma skráningu, bókhaldi, miðlun og endurskoðun talnaefnis í fastar og samræmdar skorður.

Reyndar er nú þegar búið að birta drög að mælikvörðum sem saman mynda eins konar sjálfbærnivísitölu sem getur m.a. nýst til að bera saman stöðu einstakra þjóða gagnvart sjálfbærnimarkmiðunum. Þessi drög ber ekki að taka hátíðlega, enda eru þetta bara drög, en samkvæmt þeim raða Norðurlöndin sér í efstu sætin þegar allir mælikvarðarnir eru teknir saman og reiknaðir yfir í eina vísitölu fyrir hvert land.

Ísland er þar til að mynda í 5.-13. sæti á heimsvísu, eftir því hvaða reikniaðferð er notuð. Það að eitthvert land sé hátt á þessum lista þýðir þó ekki að það geti setið hjá í vinnunni við að uppfylla sjálfbærnimarkmiðin fyrir árið 2030. Þessi markmið gilda um allar þjóðir, bæði hverja fyrir sig og í sameiningu.

Kemur þetta okkur við?

Nú er eðlilegt að spurt sé hvaða erindi umfjöllun um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, svæðabundin tengslanet, mælikvarða og vísitölur eigi við hlustendur Samfélagsins á Rás 1, í þessu örsmáa samfélagi í Norður-Atlantshafinu, langt frá heimsins vígaslóð.

Svarið við þessu er einfalt: Íslensk stjórnvöld, íslenskt atvinnulíf, íslenskt þekkingarsamfélag, íslensk félagasamtök og íslenskur almenningur þurfa, rétt eins og allir aðrir, að kynna sér sjálfbærnimarkmiðin og taka til óspilltra málanna strax í dag við að stuðla að því að þau náist. Við eigum mikið undir því að vel takist til, við berum okkar hluta af ábyrgðinni á því að svo verði og við munum bera okkar hluta af tjóninu ef svo verður ekki.

Þeir sem ekki þekkja til og vilja byrja strax að bæta úr því geta t.d. farið inn á heimasíðu Félags sameinuðu þjóðanna á Íslandi, un.is, og smellt þar á „Heimsmarkmiðin – Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun“.

Þeir sem vilja kynna sér tengslanetin sem nefnd voru hér að framan geta farið beina leið á síðuna unsdsn.org, þar sem unsdsn stendur fyrir „United Nations Sustainable Development Solutions Network“.

Framtíðin byrjar nefnilega í dag.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður