Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjálfbærar áherslur krefjist hugrekkis

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Í dag er dagur Sameinuðu þjóðanna og af því tilefni stóðu Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Festa- miðstöð um samfélagsábyrgð fyrir fundi um markmið sem Norðurlandaþjóðirnar hafa sett sér á sviði sjálfbærni og hvað fyrirtæki geta lagt af mörkum til að ná þeim markmiðum.  Framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð, segir að stjórnvöld þurfi að setja ramma og stjórnendur fyrirtæki þurfi að sýna hugrekki. 

Norðurlöndin ætla sér að verða sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030. Þessu lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna yfir þegar þeir funduðu í Reykjavík í lok ágúst. Leiðtogarnir hyggjast leggja sérstaka áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna; jafnrétti kynjanna, sjálfbæra neyslu og loftslagsbreytingar. Leiðtogunum var á fundinum í sumar tíðrætt um mikilvægi þess að vinna með einkageiranum og þeir funduðu meðal annars með fulltrúum norrænna stórfyrirtækja um hvernig fyrirtækin og stjórnvöld gætu unnið saman að því að uppfylla heimsmarkmiðin. Ríkin stefna öll að kolefnishlutleysi á næstu fimmtán til tuttugu árum. Danir hyggjast ná draga úr losun um 70% fyrir árið 2030, Norðmenn ætla að verða kolefnishlutlausir fyrir árið 2030 og Finnar fyrir árið 2035. Ísland stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. 

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, flutti erindi og velti því upp hvort elelfu ár væru langur tími, fyrir ellefu árum hafi orðið hrun á Íslandi, eftir ellefu ár ætli þjóðir heims að vera búnar að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hvað þarf til?

Hlýða má á viðtalið við Hrund í spilaranum hér fyrir ofan. 

Sjálfbærasta svæði í heimi. Hvað þýðir það? Hvað þarf að gerast til að það markmið náist. Það var markmið fundarins að svara þessum spurningum. Það voru engar nákvæmar útskýringar á þessu en fulltrúar Noregs, Svíþjóðar og Íslands töluðu um mikilvægi aðgerða og markmið sinna þjóða; tækifæri, nýsköpun og grænan vöxt. 

Norðmenn horfa út á haf

Fulltrúar frá sendiráðum Svíþjóðar og Noregs fluttu stutt ávörp. Mats Benestad, staðgengill sendiherra Noregs, fjallaði um hvernig Norðmenn líta til hafsins, þar séu óþrjótandi framtíðartækifæri að því gefnu að okkur takist að sporna gegn mengun þess. Matvælaframleiðsla, vindmyllugarðar, nýsköpun. Þangað horfi Noregur. Hann benti á að sérþekking fólks sem unnið hefur í olíu- og gasiðnaði geti nýst vel á sviði endurnýjanlegrar orkuframleiðslu. Sérþekking þeirra nýtist að vísu líka áfram í olíuiðnaðinum. Norsk stjórnvöld hyggjast halda áfram að vinna jarðefnaeldsneyti. Spyrjandi úr sal spurði hvort þetta gengi upp, að Noregur héldi áfram að framleiða olíu og gas, hvort það samræmdist markmiðum þeirra í loftslagsmálum. Hann baðst svo afsökunar á þessari leiðinlegu spurningu.

Spurningin algeng

Spurningin kom Benestad ekki á óvart, hann sagði hana nær alltaf borna upp þegar loftslagsmarkmið Noregs bæri á góma. hann sagðist ekki geta talað fyrir stjórnvöld, hann væri ekki pólitískur fulltrúi, en nefndi að áframhaldandi vinnsla væri meðal annars réttlætt með því að víða í Evrópu kæmi norskt gas í stað kolaorku. Norðmenn væru því í raun að grænka evrópska orkukerfið. Hann sagði olíuleitina mjög umdeilda í Noregi og að sömuleiðis væri deilt um hvort stefna stjórnvalda í loftslagsmálum væri nógu metnaðarfull. 

Nú spyr fólk um Thunberg

Lena Stark, sendifulltrúi frá sænska sendiráðinu vakti athygli á aðgerðum hinnar ungu Gretu Thunberg og sagðist halda að flestir Svíar væru ánægðir með framtak hennar. Áður hafi útlendingar alltaf spurt Svía út í Abba, nú spyrji fólk út í Thunberg. Stark talaði um mikilvægi þess að grípa til aðgerða, hversu mikið væri í húfi.

Vaknar og hugsar um loftslagsaðgerðir

Botninn í umræðuna um Norðurlöndin sló Unnur Brá Konráðsdóttir, sem leiðir samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Unnur sagðist vakna á hverjum morgni til verkefna á sviði loftslagsmála og að hún finndi fyrir þrýstingi frá ungu fólki, það vildi fullvissu um að hún væri að gera eitthvað í málunum og hún legði sig því alla fram. Þetta mál varðaði ekki bara eitt ráðuneyti heldur öll og ekki bara stjórnvöld heldur líka fyrirtæki.