Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjálfbær blaðamaður úti á túni

Mynd: rúv / rúv

Sjálfbær blaðamaður úti á túni

09.03.2020 - 14:49

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson rifjar upp sögu af því þegar það kviknaði í á Klambratúni og um skamma hríð var hann eini sjálfbæri blaðamaður heimsins.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég vann sem blaðamaður með fram háskólanámi á sínum tíma og tók það vitaskuld mjög alvarlega á einum af fyrstu dögunum sem einn af varðhvolpum lýðræðisins þegar yfirmenn mínir lögðu áherslu á það að við þyrftum að vera dugleg að sækja fréttirnar sjálf. Já, nú var komið að mér að fylgjast vel með því sem gerðist í kringum mig, grafa upp stóru fréttina eins og gimstein á öskuhaugum aldarfarsins og ég var staðráðinn í því að standa mig vel, nú færi ekkert fram hjá mínum vökulu augum. 

Fyrsta verkefnið á hverri morgunvakt var að hringja í lögregluembætti víðs vegar um landið, sem og vitaskuld slökkvilið og neyðarlínu, og fiska þar eftir upplýsingum um það hvort eitthvað markvert hefði gerst á Íslandi yfir nóttina. Yfirleitt voru þetta satt best að segja alveg hreint drepleiðinleg símtöl. Símtólið hvíslaði aldrei neinu merkilegu að mér. Löggan vildi aldrei segja mér neitt, þau heyrðu á mér að ég var bara einhver strákgemlingur, sem þau tóku ekki alvarlega og nenntu ekkert að tala við. 

„Já, góðan daginn, Halldór heiti ég, blaðamaður hérna. Ég er að hringja til þess að kanna hvort það sé eitthvað að frétta frá ykkur frá því í nótt?“

„Já, nei, væni minn. Ekkert að frétta héðan.“

„Ekkert markvert? Róleg nótt bara?“

„Já, vinur. Vertu blessaður.“

Þarna sat ég einn á víðfeðmri og mannlausri ritstjórn, í risastóru skrifstofuflæmi, skrifborð, tölvur, borðsímar og básar svo langt sem augað eygði, og hringdi mig smám saman allan hringinn kringum landið – til einskis. Ég dýfði háfi mínum lengst ofan í hafsjó atburðanna, aftur og aftur, og sneri til baka með tómar hendur. Það sem ég leitaði að fannst ekki. Stóra fréttin rann mér síendurtekið úr greipum. Og ég skammaðist mín. 

Forsætisráðherra bjargað í kaðalstiga

Ekki leið á löngu þar til ég var farinn að vita það fyrirfram að hringferðir mínar gegnum símtólið myndu engu skila. Ég starði á borðsímann með fyrsta kaffibolla dagsins fyrir framan mig og fannst fánýtið svo algjört. Ég varð að hringja þessi símtöl, en það var bara til þess að ég gæti sagst hafa hringt ef eitthvað stórkostlega merkilegt hefði síðan gerst um nóttina, eitthvað sem mér hefði hvort sem er aldrei verið sagt frá. Ég vissi að löggurnar myndu aldrei segja mér neitt. Á tímabili var ég farinn að halda að það væri jafnvel eitthvað mystískt við þessi símtöl mín og að þau einhvern veginn yllu því að það væri ekkert í fréttum. Örlagadísirnar hefðu ákveðið að í ljósi þess að ég væri á morgunvakt sem fréttamaður þá myndu ekki einu sinni strá vaxa á Íslandi yfir nóttina.

Síðan var ég farinn að ímynda mér alls konar stórbrotnar löggufréttir- og skúbb sem ég missti af og voru aldrei sagðar lesendum blaðsins sem ég vann fyrir vegna þess að löggurnar báru enga virðingu fyrir mér. Ég ímyndaði mér að ljóshærður maður með tagl og sólgleraugu myndi stela gjaldeyrisforða Seðlabankans í flutningabíl og takast að flýja lögregluna um borð í Norrænu á Seyðisfirði eftir æsilegan eltingarleik við Blönduós. Lögreglustjórinn stæði með steyttan hnefann á bryggjunni á Seyðisfirði og horfði á eftir skipinu sigla burt þar sem glæpamaðurinn vinkaði glottandi á þilfarinu, reykjandi sígarettu í munnstykki í morgunroðanum. Stórbrotin frétt sem aldrei yrði sögð, því síðan myndi Halldór Armand, fréttamaður, hringja í lögregluna á Blönduósi og á Seyðisfirði og spyrja fregna. Og svarið væri:

„Nei, væni minn. Gleymdu því. Allt rólegt hér.“

Ég sá fyrir mér að flugbjörgunarsveitin hefði bjargað forsætisráðherra úr brennandi skipi á næturþeli með því að láta kaðalstiga síga niður til hans sem hann rétt svo næði að grípa í með annarri hendi áður en eldtungurnar gleyptu hann.

Síðan myndi ég hringja í neyðarlínuna og Slysavarnafélagið Landsbjörgu.

„Sælir, Halldór hér, blaðamaður, eitthvað að frétta?“

„Heyrðu, nei. Ekki frekar en venjulega þegar þú hringir. Hefurðu tekið eftir því hvernig það er aldrei neitt að frétta þegar þú hringir?“

Gæludýrabúð springur í loft upp – Líklega tryggingasvindl

Stóru löggufréttirnar komu eiginlega alltaf frá ljósmyndurum sem voru með sambönd hjá löggunni. Ég hringdi í hvern vaktsíma löggunnar og slökkviliðsins á fætur öðrum, fékk að sjálfsögðu engar fréttir, en svo seinna um daginn kom hversdagslegur hóp-tölvupóstur frá einum af ljósmyndurunum. „Tékkið endilega á löggunni á Selfossi. Það sprakk gæludýrabúð þar í loft upp nótt. Þetta er líklega tryggingasvindl en við megum ekki segja það strax.“ Þessi skúbb voru alltaf rétt. Reyndar hef ég lent í þessu á öllum vinnustöðum sem ég hef unnið á. Það er alltaf einhver annar á vinnustaðnum, sem vinnur við eitthvað allt annað en ég, sem er betri í því sem ég á að gera, en ég sjálfur.

Það var síðan á laugardagskvöldi seint í júlí sem ég var á leiðinni í afmæli í miðbæ Reykjavíkur. Þegar ég arkaði inn á Klambratúnið sá ég dökkan reyk stíga til himins í fjarska á túninu. Ég pírði augun og sá þá eldtungur stíga til himins á sama stað. Þarna stóð ég, ungur blaðamaður sem enginn vildi tala við, og sá eld í garðinum. Ég ímyndaði mér að kannski myndi túnið allt brenna til kaldra kola. Það væri einhvern veginn til að fullkomna niðurlægingu mína í fjölmiðlastétt, ef Klambratún allt yrði að ösku, og að ég hefði meira að segja orðið vitni að því en samt einhvern veginn misst af skúbbinu. Sjálf Rómarborg gæti staðið í björtu báli fyrir framan nefið á mér og samt myndi mér einhvern veginn takast að fá ekki fréttina. 

Ósjálfrátt veiddi ég símann úr vasanum og hringdi í Neyðarlínuna. „Það er eldur laus á Klambratúni, þið verið að senda slökkviliðið hingað í hvelli áður en illa fer.“ Ég gekk hnarreistur yfir iðagrænan völlinn og kom stoltur í afmælið. Ég sagði öðrum frá því að mögulega hefði ég rétt í þessu komið í veg fyrir ægilegan bruna á Klambratúni. Ég hafði svo sannarlega sinnt samfélagslegri skyldu minni.

Eldsvoði reyndist grill

Morguninn eftir var ég síðan á vakt. Um sex-leytið hlammaði ég mér enn og aftur við skrifborðið mitt á mannlausri ritstjórninni og nuddaði stírurnar úr augunum. Ég tók mitt klassíska löggutékk, ég dýfði háfinum í hafsjó atburðanna enn og aftur, og veiddi að sjálfsögðu ekki neitt. Á Íslandi hafði nákvæmlega ekkert gerst. Yfir nóttina höfðu stráin gert hlé á vexti sínum, fuglar þagnað og meira að segja hafið legið lygnt og kyrrt eins og ljósmynd af sjálfu sér, allt einungis vegna þess að ég var á vakt.

En síðan hringdi ég í slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. 

„Já, góðan daginn, Halldór heiti ég, blaðamaður, ég ætlaði að kanna hvort það væri eitthvað að frétta frá ykkur síðan í nótt eða gærkvöld?“

„Nei, nei, bara róleg nótt hjá okkur, vinur.“

„Engin útköll eða neitt slíkt.“

„Njaa, nei, ekki þannig, eða, jú, reyndar það var hérna smá í gærkvöldi bara. En það var ekkert.“

„Nú,“ sagði ég upptendraður. Var mér í alvörunni að takast að fá eitthvað upp úr slökkviliðsmanni? „Hvað gerðist?“

„Æi, það hringdi eitthvert fífl hérna í gærkvöld og tilkynnti um eldsvoða á Klambratúni.“

„Jaaaá já, ég skil þig.“

„En það var ekki neitt,“ sagði slökkviliðsmaðurinn.

*Ræskti mig* „Var engin hætta á ferðum sem sagt?“

„Nei, við fórum strax þangað, en þetta var ekki neitt.“

„Mætti ég spyrja, bara svona fyrir forvitnissakir, hvað hafði gerst?“

„Það var bara fólk að grilla þarna?“

„Einmitt það já, og er það ekki ólöglegt?“

„Nei, nei, það er almenningsgrill þarna sunnanvert í garðinum og það var bara eitthvað fólk að fá sér hamborgara. Það var allt og sumt.“

Þegar ég lagði á steyptist skömmin eins og foss yfir mig og ég rak upp mikinn geðshræringarhlátur. Þetta hlaut nú heldur betur að flokkast til þess að sækja fréttirnar sjálfur, ekki satt, ekki bara hafði ég loksins fundið fréttina, heldur hafði ég sjálfur skapað hana. Var þetta ekki hæsti tindur blaðamannsins, hans leyndi draumur, að ekki bara finna fréttina og segja fréttina, heldur vera líka sjálfur fréttin án þess að nokkur annar viti það? Já, ég hlaut að vera eini sjálfbæri blaðamaður heimsins þessa stundina, í senn upphafið og endirinn í eigin starfi. Hversu margir af þessum reynslumiklu töffurum sem ég vann með höfðu afrekað þetta, að segja frétt af sjálfum sér í blaðinu?

Fréttin er ennþá þarna á vefnum. Hún birtist klukkan 6:28 þennan morguninn, 22. júlí, og ég skoða hana stundum þegar ég vil gleðja sjálfan mig. Smávægilegt útkall hjá slökkviliðinu í nótt. Eldsvoði reyndist vera grill. Að sögn slökkviliðs gekk vel að ráða niðurlögum eldsins. 

Og síðan þá hef ég aldrei getað hrist af mér þann grun þegar ég les löggu- eða slökkviliðsfréttir – hvort sem það er innbrot í raftækjaverslun, eldur í vörugeymslu, eða tilkynning um mann með skotvopn í Kópavogi – að það sé blaðamaðurinn sjálfur sem um ræðir, hann sé bæði sökudólgurinn og fórnarlambið, hann sé bæði upphafið og endirinn, sjálfbær í starfi og fyrstur með fréttina.

Tengdar fréttir

Pistlar

Grænar skírnir og bollur í Vantraustslandi

Pistlar

Ekkert er verra en góðar minningar

Pistlar

Er álitsgjafinn kannski líka snuð?

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?