Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjaldséð tússverk eftir Kjarval

Mynd: Halla Harðardóttir / Halla Harðardóttir

Sjaldséð tússverk eftir Kjarval

15.11.2017 - 10:00

Höfundar

Í geymslu Kjarvalstaða leynist margur dýrgripurinn. Þeirra á meðal er óvenjuleg tússteikning eftir Kjarval sem ekki margir hafa séð, en sem mun fá sinn sess á sýningu í janúar.

„Við erum að reyna að hætta að tala um geymslur og tölum frekar um varðveislustaði. Geymslur eru eitthvað sem þú ert með í kjallaranum í blokkinni þinni en þetta eru varðveislustaðir þar sem hugsað er um að öll umhverfisskilyrði séu í lagi. Það tala reyndar alltaf allir um geymslur, og við tölum reyndar um að fara í heimsókn ofan í geymslur,“ segir Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneigna og rannsókna, en hann og Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar, gengu með umsjónarmanni Víðsjár um geymslur Kjarvalstaða. Geymslurnar eru staðsettar í kjallara safnsins og hafa að geyma langflest verk safnsins.

Processed with VSCO with c1 preset
 Mynd: Halla Harðardóttir
Sigurður Trausti og Edda þekkja hvern krók og kima á Kjarvalstöðum.
Processed with VSCO with c1 preset
 Mynd: Halla Harðardóttir
Portrett frá 1924 af Gunnfríði Jónsdóttur, myndhöggvara, sem var jafnframt eiginkona Ásmundar Sveinssonar. Höfundur verks er óþekktur.

„Við erum oft að pakka hér niður verkum sem senda á sýningar. Og eins erum við með útleigu á listaverkum, þar sem stofnanir Reykjavíkurborgar geta fengið leigð hjá okkur verk Það er ýmislegt í gangi hér,“ segir Edda.

„Síðasta herbergið er mjög spennandi, það sem við köllum í daglegu tali fjársjóðsherbergið. Þar erum við með Kjarval, Louisu Matthíasdóttur, Svavar Guðnason og Ásmund Sveinsson. Það er rúsínan í pylsuendanum.“

Processed with VSCO with c1 preset
 Mynd: Halla Harðardóttir

„Hér erum við með verk sem er að fara á sýningu í fyrsta sinn í janúar. Safninu barst þetta verk að gjöf í fyrra. Þetta er svarthvít tússteikning sem Kjarval gerði 1928, eða fyrr eins og segir á verkinu. Undir stendur Giovanni Efrei, en hann tók sér þetta nafn, ítölskun á Jóhannes frá Efri-Ey. Hann merkti gjarna myndirnar sínar með þessari undirskrift,“ segir Edda.

Processed with VSCO with c1 preset
 Mynd: Halla Harðardóttir
Efri mynd er eftir Davíð Örn Halldórsson og kallast Some candy crushing, en sú neðri er tússverk eftir Kjarval frá árinu 1928, eða fyrr.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.