Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjaldgæft form sjálfsævisögu

Mynd: Rúv  / Rúv

Sjaldgæft form sjálfsævisögu

19.11.2017 - 12:10

Höfundar

Form sjálfsævisagna, þar sem höfundur er ekki sá sami og sögumaður bókar er sjaldgæft. Þetta form eiga þó sjálfsævisaga Alice B. Toklas eftir Gertrude Stein annars vegar, og Þúsund kossar eftir Jón Gnarr hins vegar, sameiginlegt.

Gertrude Stein er minnst fyrir allmargt enda frásagnir af heimilinu við de Fleurus-stræti 27 ævintýri líkastar og menningaráhrif Stein sjálfrar ótvíræð. Hún skrifaði skáldsögur, ljóð og leikrit. Ritstíll hennar er almennt vandskilinn enda kýs hún að ferðast óhefðbundinn veg í skrifum sínum; veg sem einkennist af endurtekningum, sem er hvorki í rökréttu samhengi né prýddur greinarmerkjum sem eiga við. Ritverk hennar hlutu almennt ekki hylli gagnrýnenda þess tíma en eitt verka hennar bar þó af. Það er Sjálfsævisaga Alice B. Toklas, eða The Autobiography of Alice B. Toklas. Þetta er módernísk sjálfsævisaga, sögð frá sjónarhorni ástkonu hennar, Alice B. Toklas. Aðalpersóna bókarinnar er „ég“, það er að segja frásögn í fyrstu persónu nema höfundurinn, Gertrude Stein, er ekki sú sama og sögumaður og aðalpersónan, og því ekki um eiginlega sjálfsævisögu að ræða.

Mynd með færslu
 Mynd: Penguin Classics
Sjálfsævisaga Alice B. Toklas

Verk Stein hafa ekki mikið verið þýdd yfir á íslensku, en Tinna Björk Ómarsdóttir þýddi fyrstu fjóra kaflana í Sjálfsævisögu Alice B. Toklas, sem lokaverkefni í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Tinna sagði frá frásagnarstíl Stein í Lestinni. „Öll hennar verk eru að einhverju leyti sjálfsævisöguleg. Hún skrifar mikið um sjálfið og hvernig það er hægt að tjá sjálfið með orðum þannig að allar bækurnar eru hlutar úr lífi hennar, en svo er ekkert af þessu persónulegt. Þetta er allt eitthvað sem hún hefur séð, eitthvað sem fólk í kringum hana hefur upplifað, en aldrei persónulegt,“ segir Tinna um stíl Stein. 

Hin eiginlega rödd sjálfsævisögunnar 

„Það hefur mikið verið reynt að greina hver er eiginlega rödd bókarinnar, hver er þessi fyrsta persóna. Það er í raun og veru ekki Gertrude Stein vegna þess að hún skrifar í gegnum Toklas. En það er heldur ekki Toklas vegna þess að það er Gertrude Stein sem skrifar,“ segir Tinna. Hún telur Stein einnig hafa skrifað í gegnum Toklas til að kasta frá sér ábyrgð á efni textans. „Hún getur fegrað allt, og hún getur tjáð sig án þess að það bitni á sér og býr þá til fjarlægð á milli þeirrar Stein sem hún vill að heimurinn sjái sig sem, og þeirra Stein sem hún er,“ segir Tinna. 

Sjaldgæft form sjálfsævisögu

Þetta form sjálfsævisögu, það er að segja að skrifa í fyrstu persónu sögu einhvers annars, er sjaldgæft. Annað dæmi um slíkt er þó bók sem um þessar mundir er mest selda ævisaga landsins samkvæmt metsölulista Pennans Eymundsson. Það er Þúsund kossar, æviminningasaga Jógu sem snýr þó aðallega að slysi sem hún varð fyrir 19 ára gömul, og eftirmálum þess. Jóga fór sem au-pair til New York 1980 og lenti þar í skelfilegri lífsreynslu sem breytti henni til frambúðar. Hjónin ræddu nýlega um bókina í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björg Magnúsdóttir - Forlagið
Jón Gnarr og Jóga

„Það reyndi mjög á“

Eiginmaður hennar, Jón Gnarr, skrifar söguna. Sagan er skrifuð líkt og um sjálfsævisögu sé að ræða. Aðalpersóna bókarinnar er ,,ég‘‘; frásögnin er í fyrstu persónu nema höfundur, Jón Gnarr, er ekki sá sami og sögumaður og aðalpersónan, líkt og í tilfelli Gertrude Stein og Sjálfsævisögu Alice B. Toklas. Ólíkt sjálfsævisögu Toklas, þá leikur enginn vafi á því að fyrsta persónan í Þúsund kossum er í raun og veru Jóga. „Það sem ég hef reynt við vinnslu bókarinnar er að draga eins mikið úr mér og mögulegt er en styrkja hennar rödd,“ segir Jón Gnarr.

En hvernig er að skrifa sem einhver annar?

„Það reyndi mjög á,“ segir Jón. „Ég var með ýmislegt sem ég setti inn í textann, sem var frá mér komið. Einhvers konar upplifun eða skynjun á einhverju sem var órætt. Þegar ég bar það síðan undir Jógu fann ég oft að hún deildi ekki þeirri upplifun. Mér fannst hún ekki gefa mikið fyrir það, þannig að ég frekar tók það út,“ segir Jón og bætir við því að meginmarkmiðið hafi verið að fanga hennar rödd í skrifunum. 

Hefur gaman af því að fabúlera með persónuleikann 

Spurður út í það hvernig það hafi verið að skrifa um sjálfan sig í þriðju persónu segist honum ekki hafa fundist það skrítið. „Ég hef ofboðslega persónulega nautn af því að fabúlera með persónuleikann. Ég hef gert það bæði í bókum mínum og því sem ég hef gert fyrir sjónvarp. Hvað er ég? og hvað er ekki ég? Og hvað er minn persónuleiki? Og hvað er eitthvað annað? Og þetta hefur bæði með hluti eins og minningar, hvað eru minningar? Og hvað er raunveruleiki? Og hvernig er raunveruleikinn eitthvað óhagganlegt? og hvernig er hann mótaður af afstöðu okkar?“ segir Jón Gnarr. 

Lestin skoðaði Sjálfsævisögu Alice B. Toklas og Þúsund kossa. Tinna Björk Ómarsdóttir las upp úr þýðingu sinni á Sjálfsævisögu Alice B. Toklas, og fjallaði um frásagnarstíl Gertrude Stein. Jón Gnarr las upp úr Þúsund kossum og sagði frá frásagnarstíl sínum. Hlusta má á hljóðbútinn í heild hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sagði í fyrsta sinn frá rúmlega 30 árum síðar