Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Sjáðu til, draumar geta ræst!“

14.06.2019 - 11:03
Mynd: RÚV / RÚV
Ída Jónasdóttir Herman dansaði af gleði yfir fréttum gærdagsins af því að lagt hafi verið til að henni verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Hana hefur lengi dreymt um að endurheimta ríkisborgararétt sinn og segist aldrei hafa misst vonina á að af því yrði.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að veita þrjátíu og tveimur ríkisborgararétt. Þeirra á meðal er Ída sem hefur átt sér þann draum heitastan að endurheimta íslenskan ríkisborgararétt sinn.

Missti aldrei trúna á að endurheimta rétt sinn

Ída er fædd á Íslandi árið 1925. Hún fékk fyrst íslenskra kvenna leyfi til að giftast bandarískum hermanni. Þau fluttu skömmu síðar til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu saman þar til maður hennar lést árið 2015. Ída vissi ekki að þegar hún hlaut bandarískan ríkisborgararétt árið 1953 missti hún sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt sinn. Hún segist hafa orðið miður sín þegar henni varð það ljóst síðar.  Hún segist aldrei hafa gleymt uppruna sínum og hafi verið staðráðin í að endurheimta íslenska ríkisborgararéttinn. 

„Ég marga daga hef ég vaknað snemma og kannað hvort eitthvað nýtt sé að frétta af umsókn minni, ég hef gert þetta lengi. Svo vaknaði ég í morgun og sá fréttirnar og ég einfaldlega gat ekki sofnað aftur. Ég var full eftirvæntingar og alveg frá mér numin. Ég legg mig vanalega aftur á morgnana en í morgun gat ég einfaldlega ekki sofnað aftur vegna spennu, “ segir Ída. 

Leit alltaf á sig sem Íslending og dansaði af gleði

Hún hafi alltaf litið á sig sem Íslending og liðið líkt og hluta hafi vantað í hana án ríkisborgararéttarins.  „Þetta er hluti af arfleið minni. Ég þráði þetta svo heitt. Ég áttaði mig ekki á því á sínum tíma að ég hefði misst ríkisborgararéttinn. Það var langur tími liðinn þegar ég komst að því og ég var gjörsamlega niðurbrotin - en nú er ég einfaldlega svo ofboðslega glöð!“

Ída segist vart ráða sér af kæti yfir niðurstöðunni. Strax í morgun  bókaði dóttir hennar ferð fyrir hana til Íslands þar sem hún ætlar að fagna rækilega með fjölskyldu sinni hér heima. „Ég var svo glöð yfir að fá þetta að ég var bara að dansa út um allt hérna í herberginu. “

Hún segist aldrei hafa misst trúna á að draumurinn yrði að veruleika. „Ég er mjög bjartsýn að eðlisfari. Þegar ég áttaði mig á því að ég hefði misst ríkisborgararéttinn dreymdi mig alltaf um að endurheimta hann - og ég gerði það! Sjáðu til, draumar geta ræst, “ segir Ída glöð í bragði.