Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjá fram á gerbreytt ástand á húsnæðismarkaði

25.06.2019 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Níu lóðarvilyrði hjá Reykjavíkurborg eru með ströngum kvöðum, til að koma til móts við ungt fólk og fyrstu kaupendur. Um sjö hundruð eru á biðlista í Gufunesi þar sem byggja á hundrað og tuttugu íbúðir. 

Níu lóðarvilyrði hafa verið gefin af hálfu Reykjavíkurborgar frá því í apríl, á sjö stöðum. Stefnt er að uppbyggingu hagkvæms húsnæðið sem kynnt var fyrr á árinu. Um er að ræða litlar íbúðir, sem eiga að koma til móts við efnaminni eða fyrstu kaupendur. 

„Við erum í raun að horfa fram á það að það verði gerbreytt ástand á húsnæðismarkaðinum eftir tvö til þrjú ár, þegar þetta byrjar að flæða inn á markaðinn.“ segir Óli Örn Eiríksson, formaður starfshóps Reykjavíkurborgar um hagkvæmt húsnæði. 

Íbúðirnar verða ýmist til sölu eða til leigu en lóðarvilyrðin eru öll samhljóma. Forgang hafa einstaklingar á aldrinum átján til fjörutíu ára. Ef tveir eða fleiri sækjast eftir sömu íbúð ganga þeir fyrir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Ef kaupendur eru allir að kaupa sína fyrstu íbúð er dregið um það hver fær íbúðina.

Stefnt er að þvi að selja íbúðirnar á föstu verði - verðviðmiðið er á bilinu tuttugu til þrjátíu milljónir. „Og þá setjum við ákvæði um það að þú getir bara selt þær hærri, upp á þá hækkun sem hefur verið á markaði frá því þú kaupir. Þannig þú færð aldrei afsláttinn sem borgin gefur.“ segir Óli Örn. 

Gert er ráð fyrir því að íbúðirnar séu til búsetu og ættu því ekki að koma inn á leigumarkaðinn. „Þú gætir kannski leigt hana í skammtímaleigu eins og lögin leyfa, í níutíu daga, en það er ekki ætlast til þess að þú kaupir íbúð og búir í annarri og leigir þessa út.“

Svo virðist sem mikil eftirspurn sé eftir íbúðum af þessu tagi - nú þegar eru um sjö hundruð manns á biðlista eftir hundrað og tuttugu íbúðum í Gufunesi. Fram kemur í lóðarvilyrðum að seljist íbúðin ekki til þessa forgangshóps innan þriggja vikna frá auglýsingu í fjölmiðlum sé heimilt að setja hana á sölu fyrir almennan markað.

Óli Örn segir það matsatriði hvort þessar þrjár vikur séu stuttur tími. „Og íbúðirnar eru á lægra verði en á markaðinum almennt þannig ég á bara fyllilega von á því að það verði biðlisti um hverja einustu íbúð en þessar þrjár vikur eru hugsaðar sem öryggisventill, ef það kallar enginn eftir íbúð á þessum þremur vikum þá er hægt að selja hana til annarra aðila.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV