Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

SÍS hvatti til kjörsóknarsendinga

12.02.2019 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hvatti til þess að sveitarfélög til þess að senda ungu fólki hvatningu um að fara á kjörstað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra. Í þeim tilgangi samdi SÍS skilaboð sem sveitarfélög gátu notað á mismunandi miðlum til þess að auka kosningaþátttöku.

Reykjavíkurborg vekur athygli á þessu í fréttatilkynningu í dag. Persónuvernd komst nýverið að niðurstöðu um að Reykjavíkurborg, rannsakendur við Háskóla Íslands og Þjóðskrá hafi brotið persónuverndarlög með sendingu SMS-skeyta í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga.

Í tilkynningunni frá borginni segir að á undanförnum árum hafi það talist alvanalegt að sveitarfélög hvetji til þátttöku í kosningum. Í þeim tilgangi hafi SÍS útbúið myndbönd og skilaboð fyrir samfélagsmiðla á íslensku og ensku og staðið að rannsóknum á kosningaþátttöku.

Í rannsókn félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem gerð var fyrir innanríkisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2014, var leitt í ljós að ungt fólk kysi síður í sveitarstjórnarkosningum.

Opinber stefna SÍS er að beita sér fyrir umræðu á vettvangi sveitarfélaga um framþróun lýðræðis á sveitarstjórnarstigi og hvernig hægt sé að auka þátttöku í kosningum.

Borgin fór aðra leið

Í tilkynningunni frá borginni segir að skilaboð SÍS hafi ekki verið notuð í aðdraganda kosninganna heldur sendi borgin út bréf til ungra kjósenda eftir fræðimenn Háskóla Íslands. Það var gert í rannsóknarskyni en hafi haft sama tilgang og skilaboð SÍS: að hvetja fólk til að nýta kosningaréttinn. Tvö bréf voru útbúin til erlendra ríkisborgara og kvenna eldri en 80 ára.

Reykjavíkurborg óskaði eftir heimild Persónuverndar til að senda skilaboðin og fékk svar um miðjan maí í fyrra. Svarið var ekki afdráttarlaust og þar kom fram að það væri hlutverk borgarinnar að passa að sendingin væri í samræmi við persónuverndarlög.

Borgarfulltrúarnir Hildur Björnsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum og Kristín Soffía Jónsdóttir úr Samfylkingunni ræddu málið í Kastljósi í gærkvöldi.

Hildur sagði að ákvörðun Persónuverndar sýni að borgin hafi misbeitt opinberu fé í kosningabaráttunni fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar.

Kristín Soffía sagði að borgin hafi talið sig vera með bæði belti og axlabönd og að sendingarnar hefðu verið samþykktar samhljóðar í borgarráði þar sem allir hefðu talið nauðsynlegt að auka kjörsókn.