Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sinn Féin fékk flest atkvæði í írsku kosningunum

10.02.2020 - 02:22
epa08206058 Sinn Fein president Mary Lou McDonald speaks to the press at a count center in Dublin, Ireland, 09 February 2020. Exit polls in the Irish general election suggest a three way tie between Fianna Fail, Fine Gael and Sinn Fein after the 08 February general elections.  EPA-EFE/AIDAN CRAWLEY
Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin Mynd: EPA-EFE - EPA
Sinn Féin, vinstri þjóðernisflokkur sem berst fyrir sameiningu Írlands, er sigurvegari írsku þingkosninganna. Þar með virðist tveggja-flokka valdakerfi borgaraflokka sem verið hefur við lýði í Írska lýðveldinu allt frá stofnun þess heyra sögunni til.

Búið er að telja öll atkvæði í öllum 39 kjördæmum landsins. Sinn Féin hlaut 24,5 prósent fyrsta-forgangsatkvæða, en írsku kosningarnar eru það sem nefnt er persónulegar hlutfallskosningar. Fianna Fáil hlaut 22,2 prósent fyrsta-forgangsatkvæða en stjórnarflokkur Leos Varadkars, Fine Gael, einungis 20,9 prósent.

Ekki víst að þetta skili sér í flestum þingmönnum

159 þingmenn eru á írska þinginu og koma úr 39 kjördæmum. Þar sem Sinn Féin var einungis með 42 frambjóðendur er ekki fullvíst að velgengni þeirra skili þeim flestum fulltrúum á þingi þegar upp er staðið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir fengu flest atkvæði og því fagna flokksmenn að vonum. „Það er opinbert - [Sinn Féin] vann kosningarnar - fékk flest atkvæði!" skrifaði Mary Lou McDonald, formaður flokksins, á Twitter.

Sinn Féin var áður stjórnmálaarmur Írska lýðveldishersins, IRA. Það er ástæða þess að hinir stóru flokkarnir tveir, Fine Gael og Fianna Fáil, hafa þvertekið fyrir þann möguleika að starfa með honum í ríkisstjórn. McDonald sagði fyrr í dag að leiðtogar Fine Gael og Fianna Fáil væru fastir í fortíðnni og yrðu að fara að átta sig á og sætta sig við að þjóðin hefði talað og þjóðin vildi augljóslega Sinn Féin í stjórn.