Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sinfóníukvöldum hleypt af stokkunum á RÚV 2

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfonia.is

Sinfóníukvöldum hleypt af stokkunum á RÚV 2

26.03.2020 - 16:35

Höfundar

Fimmtudagskvöld hafa löngum verið sinfóníukvöld – og þau verða það áfram þrátt fyrir samkomubann. Völdum tónleikum verður sjónvarpað í heild sinni á RÚV 2 auk þess að vera útvarpað á Rás 1 venju samkvæmt.

Á tímum samkomubanns býður Sinfóníuhljómsveit Íslands upp á reglulegar heimsendingar til landsmanna. Í kvöld klukkan 19:30 er boðið upp á tónleika með Víkingi Heiðari Ólafssyni, Radovan Vlatković og Daníel Bjarnasyni sem teknir voru upp 8. nóvember 2019.

Á efnisskránni er Processions, píanókonsert Daníels Bjarnasonar frá 2009, hornkonsert nr. 3 eftir Mozart, valdir þættir út Pétri Gaut eftir Grieg og sinfónía nr. 5 eftir Sibelius.

Tónleikarnir mörkuðu upphaf ferðalags Sinfóníuhljómsveitar Íslands um þrjár leiðandi menningarborgir Austurríkis og Þýskalands. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason og Víkingur Heiðar lék einleik í píanókonserti hans, Processions.

Konsertinn var frumfluttur skömmu eftir hrun, í febrúar árið 2009. Daníel stjórnaði hljómsveitinni þá í fyrsta skipti, Víkingur Heiðar lék einleik, en þá blésu allt aðrir vindar í íslensku tónlistarlífi og þjóðlífi en nú. Viðtal við Daníel og Víking var flutt á Rás 1 þegar tónleikarnir fóru fram í nóvember.

Líkt og nú þá ríkti mikil óvissa í íslensku samfélagi. „En í því myndast ákveðinn kraftur og þessi konsert er kannski saminn inn í það ástand þó það sé erfitt að segja nákvæmlega hvað það þýðir,“ sagði Daníel. „Ég leyfði mér kannski eitthvað sem ég hefði annars verið hræddari við. Það voru allar taugar þandar og mér fannst að þetta skipti máli.“

Tónleikarnir verða sem fyrr segir sýndir á RÚV 2, en þeim verður einnig streymt á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útvarpað á Rás 1.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Frá kreppu til gullaldar