Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sindri tjáði dómara að hann væri ekki í felum

25.04.2018 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum - RÚV
Sindri Þór Stefánsson, sem flúði úr fangelsinu að Sogni í síðustu viku og var handtekinn af tveimur lögreglumönnum á reiðhjólum við Damrak í Amsterdam, tjáði dómara í morgun að hann væri ekki á flótta, hann væri frjáls maður og ekki í felum. Þetta segir hollenskur lögmaður Sindra. Sindri verður framseldur til Íslands innan 20 daga að beiðni íslenskra yfirvalda en hann var úrskurðaður í 19 daga gæsluvarðhald í morgun.

Michiel Kuyp, lögmaður Sindra í Hollandi, segir í samtali við fréttastofu að líðan Sindra sé ágæt miðað við aðstæður. Sindri verði vistaður í venjulegu fangelsi en saksóknaraembættið muni sjá um flutning hans til Íslands. 

Kuyp segist hafa gert athugasemdir við handtöku Sindra í Amsterdam. Vitnið sem kom með ábendingu um hvar Sindri væri niðurkominn hafi búið yfir upplýsingum sem aðeins hafi verið að finna í rannsóknargögnum. Eftir að lögreglan í Amsterdam fékk upplýsingarnar voru tveir lögreglumenn á reiðhjólum sendir til að leita Sindra sem þeir fundu síðan við Damrak.  

Kuyp segir Sindra hafa greint dómara frá því við upphaf réttarhaldsins í morgun að hann vildi fara sjálfviljugur til Íslands og hvort ekki væri hægt að afgreiða þetta fljótt. „Hann sagðist ekki hafa flúið,  hann væri ekki í felum heldur frjáls maður,“ segir Kuyp. Hann kveðst þó ekki vita hvort Sindri hafi verið búinn að ákveða að koma til Íslands áður en hann var handtekinn.

Upplýsingafulltrúi saksóknaraembættisins í Amsterdam sagði við fréttastofu í morgun að þegar Sindri var handtekinn hafi hann verið með fölsuð skilríki. 

Gæsluvarðhaldið yfir Sindra, sem hann hefur sætt vegna gruns um að tengjast stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði úr tveimur gagnaverum, var ekki framlengt fyrr en morguninn eftir flóttann frá Sogni. Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands, sagði í fréttum RÚV að það væri skýrt í stjórnarskrá, að ekki megi svipta neinn frelsi nema með heimild í lögum.