Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sindri Þór sér eftir flóttanum

04.05.2018 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Sindri Þór Stefánsson sá eftir því að hafa flúið frá Sogni um leið og hann lenti í Stokkhólmi. Þetta segir hann í löngu viðtali í dag í bandaríska stórblaðinu New York Times. Hann segist hafa farið á puttanum frá Sogni til Keflavíkur.

Sindri Þór Stefánsson strauk úr fangelsinu að Sogni og flúði til Svíþjóðar aðfaranótt þriðjudagsins 17. apríl. Hann var síðar handtekinn í Amsterdam og til stendur að flytja hann til landsins í dag. New York Times fjallar ítarlega um málið í dag og birtir langt viðtal við Sindra.

Sindri Þór segist ekki hafa spjallað við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í flugvélinni til Stokkhólms þegar hann flýði land, en sem kunnugt er var forsætisráðherra í sömu vél.

Sindri segir í símaviðtali við blaðið, úr fangelsinu í Amsterdam, að hann hafi verið með derhúfu niður í augu og reynt að láta sem minnst á sér bera.

Blaðið rekur tölvustuldinn sem Sindri er grunaður um að vera viðriðinn, en Sindri segist fullur eftirsjár yfir því að hafa flúið úr fangelsi, hann hafi séð eftir því um leið og hann lenti í Stokkhólmi. Hann hafi valdið fjölskyldu sinni óþarfa sárindum.

Sindri segist hafa pantað flugfarið úr fangelsinu, síðan opnað glugga, stokkið út og gengið af stað, hann hafi farið á puttanum til Keflavíkur og þaðan tekið leigubíl út á flugvöll.

Frá Stokkhólmi hafi hann svo ferðast með lest, leigubíl og ferju í gegnum Danmörku til Þýskalands. Þar hafi hann hitt fólk sem hafi ekið honum til Amsterdam. Þar hafi hann einungis notið þriggja stunda frelsis áður en hann var handtekinn. Hann segist vera ánægður með að vera á heimleið þó svo að hann fari rakleiðis í fangelsi.

Sindri segir að hann hafi verið edrú í sjö ár og hafi ætlað að flytja til Spánar með eiginkonu sinni og þremur börnum. Tveimur dögum áður en af flutningunum varð var hann handtekinn grunaður um tölvuþjófnaðinn.