Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sindri Þór dæmdur í 4 og hálfs árs fangelsi

17.01.2019 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Sindri Þór Stefánsson var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í 4 og hálfs árs fangelsi í gagnaversmálinu svokallaða. Gæsluvarðhald sem Sindri sætti um þriggja mánaða skeið dregst frá refsingu hans. Matthías Jón Karlsson var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Tveir sakborninganna voru dæmdir í eins og hálfs árs fangelsi og Hafþór Logi Hlynsson var dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi. Aðrir sakborningar fengu vægari dóm.

Þá var öllum sakborningum gert að greiða Advania rúmar 33 milljónir í skaðabætur.

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra , sagði í samtali við fréttastofu eftir dómsuppkvaðningu að honum þætti refsingin vera þung en ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um hvort dómnum yrði áfrýjað til Landsréttar. Það myndi mögulega skýrast seinna í dag.

Sjö voru ákærðir í málinu en það snerist um innbrot í fjögur gagnaver þrjár nætur í desember og janúar í fyrra og hitteðfyrra og tilraunir til tveggja innbrota í viðbót. Rannsókn málsins var mjög umfangsmikil  og lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði það eitt það stærsta sem hefði nokkru sinni komið inn á hans borð. 

Andvirði þýfisins var metið á 96 milljónir en tjónið á 135 milljónir. Búnaðurinn er allur ófundinn en eigendur hans hétu þeim sem gætu gefið upplýsingar um málið sex milljónum króna fundarlaunum.  

Níu voru handteknir á sínum tíma en sjö voru ákærðir. Umtalaðastur er sennilega Sindri Þór Stefánsson sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Hann strauk úr fangelsinu að Sogni í apríl á síðasta ári og flaug til Svíþjóðar með sama flugi og forsætisráðherra en það vakti heimsathygli.  

Hann náðist í Amsterdam fimm dögum seinna en skömmu áður hafði hann setið fyrir á mynd með tveimur félögum sínum sem birtist á Instagram. Tvímenningarnir sem voru með honum á myndinni voru báðir ákærðir fyrir hlutdeild í einu innbrotanna.

Fréttin hefur verið uppfærð