Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sindri höfuðpaur og brotin undirbúin í þaula

17.01.2019 - 17:07
Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum / RÚV
Héraðsdómur Reykjaness segir í dómi sínum í gagnavers-málinu svokallaða að það sé niðurstaða dómsins að Sindri Þór Stefánsson hafi verið höfuðpaurinn. Hann hafi skipulagt brotin og undirbúið í þaula. Þá telur dómurinn að brotin teljist stórfelld, ekki bara vegna verðmætanna sem var stolið heldur einnig vegna þeirrar aðferðar sem viðhöfð voru við undirbúning og í aðdraganda þeirra. Sakborningar hafi reynt til hins ýtrasta að hylja slóð sína og villa um fyrir lögreglu.

Sindri Þór var í dag dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Matthías Jón Karlsson hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Hafþór Logi Hlynsson 20 mánaða dóm og tveir sakborningar til viðbótar voru dæmdir í 18 mánaða fangelsi.

Tveir sakborningar í málinu fengu vægari dóma.  Sex af sakborningunum sjö var gert að greiða sakarkostnaðinn í málinu sem nemur 14,5 milljónum og þá var þeim öllum gert Advania rúmar 33 milljónir. 

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort dóminum verði áfrýjað til Landsréttar. Þeir ætli að taka sér nokkra daga til fara yfir dóminn sem er býsna ítarlegur og langur.