Síminn breytist og verður fjölmiðlarisi

16.04.2015 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd: espensorvik - Flickr
Ákveðið hefur verið að sameina Símann og afþreyingarfyrirtækið Skjáinn, sem meðal annars hefur rekið sjónvarpsstöðina SkjáEinn og VOD-sjónvarpsþjónustu fyrir viðskiptavini Símans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum. Síminn og Skjárinn hafa hingað til verið systurfélög.

Segjast fylgja þróuninni í heiminum
Skjárinn hefur rekið sjónvarpsstöðvarnar SkjáEinn og SkjáSport, útvarpsstöðina K100,5 og sjónvarpsþjónusturnar SkjáKrakka, SkjáHeim og SkjáBíó, sem býður upp á VOD-þjónustu fyrir viðskiptavini Símans. Þetta rennur nú allt inn í starfsemi Símans.

Við sameininguna breytist Síminn því úr hefðbundnu fjarskiptafyrirtæki í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki. Í tilkynningu frá Símanum segir að þetta sé í samræmi við þróun erlendis, þar sem afþreying og sjónvarpsefni tengist fjarskiptaþjónustu sífellt sterkari böndum.

Ekki fyrsta fyrirtækið af þessari gerð á Íslandi
Síminn er ekki fyrsta blandaða fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið á Íslandi því að fjölmiðlarisinn 365 hefur um nokkurt skeið boðið upp á fjarskiptaþjónustu og efldist á því sviði þegar fyrirtækið sameinaðist Tali fyrir skömmu.

Sameining Símans og Skjásins var ákveðin eftir að sátt náðist við Samkeppniseftirlitið um að aflétta hluta af kvöðum sem voru settar á fyrirtækin 2005. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum fólu þær í sér miklar takmarkanir á möguleikum fyrirtækjanna til samstarfs.

Samkeppniseftirlitið setur nokkur skilyrði
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að eftirlitið hafi fallist á að breyta skilyrðum þannig að fellt sé niður bann við sameiningu Símans og Skjásins. Fyrirtækin hafi á móti fallist á að hlíta tilteknum skilyrðum í starfsemi sinni, til að draga úr hættunni á mögulegum samkeppnishamlandi áhrifum.

Skilyrðin eru meðal annars að reikningshald vegna hefðbundinnar innlendrar sjónvarpsdagskrár, þ.e.a.s. SkjásEins og SkjásSports, sé aðgreint frá öðru bókhaldi Símans. Símanum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu að þjónusta Skjásins fylgi með í kaupunum, eða bjóða verð eða viðskiptakjör sem má jafna til slíks skilyrðis. Þá verður haft eftirlit með því að skilyrðunum sé fylgt.

Skipti lögð niður og Síminn verður móðurfélag Mílu
Bæði Síminn og Skjárinn hafa frá árinu 2007 verið í eigu eignarhaldsfélagsins Skipta, sem hefur auk þess verið móðurfélag Mílu og fleiri fyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum verður á aðalfundi í dag lokið við breytingar á samsteypunni, sem fela í sér að Skipti verða sameinuð Símanum og Síminn verður þá að móðurfélagi, og eignast þar með Mílu og fleiri dótturfélög Skipta.

Lífeyrissjóðir munu eiga hátt í helming hlutafjár í Símanum en stærsti einstaki hluthafinn er Arion banki með 38% hlut. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum er stefnt að því að skrá fyrirtækið í kauphöll í haust.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi