Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Símar bannaðir á ríkisstjórnarfundum

26.11.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðherrar verða nú að skilja farsíma sína eftir í lokuð umslagi áður en ríkisstjórnarfundir hefjast. Öryggi æðstu stjórnar ríkisins hefur verið eflt meðal annars vegna ótta við hleranir.

Um hálf tíu leytið í morgun mættu ráðherrarnir hver af öðrum á ríkisstjórnarfund venju samkvæmt. Mikill trúnaður ríkir um það sem rætt er á fundum ríkisstjórnarinnar. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að nú er ráðherrum gert að slökkva á farsímanum og setja hann í merkt umslag á meðan á fundinum stendur. Óttinn við að eitthvað leki út er ekki ástæðulaus, því óboðnir geta brotist inn í símann og notað hann til dæmis sem upptökutæki. Ýmir Vigfússon er lektor í tölvunarfræði við HR.

„Þú getur látið símann taka upp öll samskipti án þess að það sjáist, þú getur látið hann taka myndir, þú getur látið hann taka öll gögn sem þú ert með á símanum, svosem myndir og símaskrá og svoleiðis, taka afrit af því eða þú getur jafnvel sett upp nýjan hugbúnað.“

Allt þetta, þrátt fyrir að eigandinn sé ekki að nota símann.  

Afhjúpanir uppljóstrarans Edwards Snowden sýndu að Bandaríkjamenn hafa fylgst með símum 35 þjóðarleiðtoga á undanförnum árum. Til að mynda var fylgst með síma Angelu Merkel þýskalandskanslara í áratug.  

Í Wikileaks skjölunum kom fram að Bandaríkjamenn í sendiráðinu í Reykjavík töldu fullvíst að Kínverjar stunduðu iðnaðarnjósnir á sviði erfðafræði á Íslandi og að Rússar fylgdust grannt með njósnum Kínverja.  Ekki er ljóst hver ætti að vilja hlera ríkisstjórnarfundina, en Birgitta Jónsdóttir alþingiskona hefur fullyrt að Bretar hafi njósnað um íslensku Icesave samninganefndina. Þá hefur landfræðileg staða Íslands skipt máli í gegnum tíðina og gerir enn, til dæmis með tilliti til þróunar á norðurslóðum.  

Að loknum ríkisstjórnarfundi sækja ráðherrar síma sína - en það er ekki sama hvað er rætt í þeim.  

Ríkislögreglustjóri vill ekki tjá sig um auknar öryggisráðstafanir. Heimildir fréttastofu herma að ráðherrum hafi verið ráðlagt að ræða almennt ekki trúnaðarmál í farsíma. Þá hefur verið rætt um að banna fólki að taka síma inn á fundi með ráðherrum.  

Eftir hrun var öryggi ráðherra aukið og ekki að ástæðulausu.  Í nýlegri reglugerð er gerð sú krafa að ráðherrabílar séu búnir öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði sem stjórnstöð lögreglu fylgist með. Sá búnaður hefur verið notaður um nokkurt skeið. En það er nýtt að nú flokkast bílstjórar sem öryggisverðir ráðherra og fá viðeigandi þjálfun.