Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Símar Alþingis sagðir hleraðir

Mynd með færslu
 Mynd:
Uppljóstrunarsíðan Wikileaks á upptökur af símtölum úr símum Alþingis á fjögurra mánaða tímabil frá 2009 til 2010. Þetta fullyrti Julian Assange, stofnandi Wikileaks, í samtali við Bradley Manning.

Þetta kemur fram í skjölum sem vefsíðan Wired.com birti í gær. Í gögnunum má sjá netsamtal tveggja einstaklinga undir dulnefni, en sannað þykir að þeir sem ræði saman séu Julian Assange og Chelsea Manning, sem þá hét Bradley Manning. Dulnefni Assange var Nathaniel Frank, en dulnefni Manning var Nobody. Samtalið átti sér stað þann 17. mars árið 2010, réttum tveimur mánuðum áður en Manning var handtekin af bandarískum heryfirvöldum.

Assange fullyrðir í samtalinu að hann hafi komist yfir upptökur af símtölum Alþingis allt frá nóvember 2009 til febrúar 2010. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að hann væri sleginn yfir þessum fréttum. Sagði hann að málið væri grafalvarlegt, sé eitthvað hæft í fullyrðingum Assange. Mikilvægt væri að fá úr því skorið sem fyrst, hvort fótur sé fyrir þeim.

Í samtali við fréttastofu, kannaðist Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, ekki við að uppljóstrunarsíðan hefði umræddar upptökur undir höndum eða að þær væru til yfir höfuð.

Samkvæmt öðrum heimildum fréttastofu er fullyrðing Assange um upptökurnar röng.

Umrætt netsamtal má sjá í heild sinni hér