Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Silja: Ætluðum að lýsa vantrausti á Sigmund

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að þingflokkurinn hafi verið reiðubúinn að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson af sem forsætisráðherra í apríl. Hún segir ömurlegt að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður flokksins sé sakaður um svikabrigsl með formannsframboði sínu. 

Sigurður Ingi sagði í gær að þingflokkurinn hafi ætlað að lýsa vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson á örlagaríkum þingflokksfundi 5. apríl þegar Wintris-málið stóð sem hæst. Silja Dögg Gunnarsdóttir sem skipar annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi, á eftir Sigurði Inga, lýsir atburðarásinni á fundinum með svipuðum hætti.

Sigmundur Davíð var kominn upp við vegg

„Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð komu of seint á fundinn og við funduðum á meðan þingmennirnir um stöðuna. Við vildum að Sigmundur færi frá sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi tæki við því kefli vegna þess að hann er varaformaður flokksins. Síðan kemur Sigurður á fundinn og við færum honum þessi skilaboð og biðjum hann um að taka þetta verkefni að sér í umboði þingflokksins. Hann var ekki spenntur og ekki glaður en sagði að það vera skyldu sína og hann verði að standa undir ábyrgð og taka þetta að sér, ef það væri okkar vilji. Hann bað okkur um að leyfa sér að tala einslega við Sigmund Davíð áður en við myndum leggja þetta á borðið, sem var gert af tillitssemi við Sigmund,“ segir Silja.

„Þegar Sigmundur kemur stuttu síðar þá fara þeir tveir afsíðis og tala saman. Sigurður Ingi gerir honum grein fyrir stöðunni. Þeir koma saman inn aftur og þá leggur Sigmundur Davíð fram þá tillögu að hann stigi til hliðar og Sigurður Ingi taki við sem forsætisráðherra, en á þeim tíma vissi hann að ef hann myndi ekki gera það sjálfur þá myndi þingflokkurinn leggja fram tillögu og hún yrði samþykkt, þar sem mikill meirihluti var fyrir henni í þingflokknum,“ heldur Silja áfram.

„Við í þingflokknum töldum þetta vera nauðsynlegt á þessum tíma vegna þess að við vildum halda áfram að vinna að okkar góðu verkefnum og reyna að klára þau áður en við færum í kosningar. Þannig að við vorum með þessa tvo valkosti, annars vegar að halda áfram samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og freista þess að klára stór verkefni eins og húsnæðismálin, almannatrygginginakerfið og fleira eða fara strax í þingrof og fara í kosningar strax í vor. Það taldi meirihluti þingflokksins ekki vera góðan kost á þessum tíma.“

Ömurlegt að Sigurður Ingi sé sakaður um að ganga á bak orða sinna

Silja Dögg segir Sigmund Davíð ekki geta neitað því að Wintris-málið sé ástæða þess að alþingiskosningunum hafi verið flýtt. Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra og Sigmundur Davíð hafa báðir sagt að Sigurður Ingi hafi gengið á bak orða sinna með formannsframboði sínu.

„Mér finnst alveg ömurlegt að fólk skuli segja þetta um Sigurð Inga. Hann hefur staðið sig afskaplega vel sem forsætisráðherra. Hann hefur unnið vinnuna í umboði þingflokksins. Hann sóttist ekki eftir því að verða forsætisráðherra, hann ætlaði sér ekki að fara í formannsframboð, en vegna mikillar hvatningar hjá Framsóknarmönnum á öllu landinu, þá tók hann þessa ákvörðun í síðustu viku. Það var ekki með gleði í hjarta, heldur var hann eingöngu að sinna skyldu sinni gagnvart flokksmönnum.  Það sýndi sig og það er staðreynd að kjördæmisþingin óskuðu eftir því að flokksþing yrði haldið nú í haust vegna þess að menn vilja fá að kjósa lýðræðislega um það hver eigi að leiða flokkinn í næstu kosningabaráttu. Menn verða að leyfa flokksmönnum að segja sínar skoðanir og ástunda lýðræðisleg vinnubrögð.