Síldarvinnslan lokar verksmiðjunni í Helguvík

07.02.2019 - 15:11
Mynd með færslu
Mynd: svn.is Mynd:
Síldarvinnslan hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík. Sex starfsmönnum þar verður sagt upp störfum. Ástæðan er síminnkandi hráefni til verksmiðjunnar en þar hefur að langmestu leyti verið unnin loðna.

Síldarvinnslan hefur starfrækt verksmiðjuna í Helguvík frá árinu 1997. Þar verður móttöku hráefnis hætt að lokinni loðnuvertíð, en eins og fram hefur komið er mikil óvissa um hvort af þeirri vertíð verði.

Vonast til að önnur uppbygging komi í staðinn 

Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar kynntu starfsfólki um lokun verksmiðjunnar fyrr í dag, en einnig fulltrúum Reykjanesbæjar og öðrum sem hlut eiga að máli. „Lokun verksmiðjunnar hefur í för með sér uppsögn sex starfsmanna en að auki hefur hún áhrif á ýmis verktaka- og þjónustufyrirtæki. Síldarvinnslan vonast til að önnur uppbygging á Suðurnesjum komi í veg fyrir að lokun verksmiðjunnar hafi þar alvarleg áhrif,“ segir í tilkynningu frá Síldarvinnslunni. 

Síminnkandi hráefni og óvissa um loðnuveiðar

Þar kemur fram að rekstur verksmiðjunnar standi ekki lengur undir sér. Helsta ástæðan er síminnkandi hráefni til fiskimjölsverksmiðja, hækkandi kostnaður og auknar kröfur, sem kalli á sterkar einingar og aukna hagræðingu. Loðna er uppistaða þess hráefnis sem borist hefur til verksmiðjunnar í Helguvík og nýting verksmiðjunnar farið síminnkandi. Minnkandi loðnukvóti og mikil óvissa um loðnuveiðar hafi aukið óvissuna um rekstur verksmiðjunnar.

Koma búnaði og fasteignum í sölu og aðra notkun

Í tilkynningunni segir að hafist verði handa við að ganga frá verksmiðjunni og svæðinu í Helguvík í samráði við hlutaðeigandi yfirvöld. Þá verði unnið að því að koma búnaði og fasteignum í sölu og notkun. Fasteignir verksmiðjunnar í Helguvík geti nýst með ýmsum hætti í samfélaginu.

 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi