Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigurganga Bidens heldur áfram

epa08296647 Democratic presidential candidates former Vice President Joe Biden (L) and Vermont Senator Bernie Sanders (R) during the eleventh Democratic presidential debate at CNN Studios in Washington, DC, USA, 15 March, 2020. The debate was originally going to be held in Phoenix, Arizona but was relocated to Washington, DC and held in front of no audience as part of continuing efforts to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease  EPA-EFE/GABRIELLA DEMCZUK FOR CNN / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY, NO SALES, MANDATORY CREDIT CNN
Þeir Joe Biden og Bernie Sanders tókust á í kappræðum í beinni útsendingu á CNN á sunnudag. Mynd: EPA-EFE - CNN
Sigurganga Joe Bidens í forvali Demókrata hélt áfram í gærkvöld, þegar hann vann öruggan sigur á keppinaut sínum, Bernie Sanders, í öllum þremur ríkjunum sem bitist var um. Stærsti sigurinn var í fjölmennasta ríkinu, Flórída, þar sem Biden fékk 62 prósent greiddra atkvæða en Sanders aðeins 23 prósent. Þetta tryggði Biden 130 kjörmenn, Sanders fær 48, en 37 mæta óbundnir til landsfundarins í sumar.

Biden líka með yfirburði í Illinois

Í Illinois vann Biden líka yfirburðasigur með 59 prósentum atkvæða á móti 36 prósentum Sanders og tryggði sér 93 kjörmenn á móti 46. Minnstur var munurinn í Arizona, þar sem Biden fékk rúmlega 42 prósent atkvæða og 26 kjörmenn en Sanders tæp 30 prósent og 22 kjörmenn. Búið er að telja nánast öll atkvæði í stærri ríkjunum tveimur en talning er skemur á veg komin í Arizona, svo þar gætu enn orðið einhverjar sveiflur.

Sigur Bidens nánast í höfn

Gangi þetta eftir hafa forkosningar gærdagsins skilað Biden 249 kjörmönnum en Sanders einungis 116. Samtals hefur Biden því tryggt sér stuðning 1.147 kjörmanna á landsfundinum, en Sanders er með 861 kjörmann á bak við sig. Stjórnmálaskýrendur vestanhafs telja ólíklegt og jafnvel útilokað að Sanders takist að snúa taflinu við úr þessu. Til að hljóta útnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi þarf 1.991 kjörmann.

Kórónaveiran setur strik í reikninginn

Til stóð að halda líka forval í Ohio í gær, en því var frestað þegar ríkisstjórinn Mike DeWine lýsti yfir neyðarástandi í ríkinu vegna COVID-19 faraldursins. Samkvæmt frétt AFP er talið að sú skæða farsótt hafi líka haft umtalsverð, neikvæð áhrif á kjörsóknina í Flórída, Illinois og Arizona.