Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sigurður Ingi: Við hvern á að segja „sorrí“?

20.05.2017 - 11:05
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Það vantar meiri samstöðu í þingflokki Framsóknarflokksins, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, í ræðu sinni á miðstjórnarfundi flokksins í morgun. Hann gagnrýndi þá sem hafa sett sig upp á móti forystu flokksins sem kosin var á flokksþingi Framsóknarflokksins síðastliðið haust. Hann sagði að það virtist ekki öllum gefið að sætta sig við lýðræðislega niðurstöðu flokksmanna.

„Ég vil nota þetta tækifæri hér í dag og spyrja; ímyndið ykkur hvað við gætum gert núna ef okkur auðnaðist að ganga í takt? En það er einmitt það sem ég tel að flokksmenn séu að kalla eftir, þegar þeir segja að það skorti á samstöðuna. Og verðum við í forystu flokksins- stjórn flokksins og þingmenn - ekki að beygja okkur undir þennan vilja og þessa sjálfsögðu kröfu? Erum við ekki kosin til þess að gera þjóðfélagið betra á forsendum þess sem hugsjónir flokksins grundvallast á; skuldum við ekki flokksmönnum og kjósendum okkar það að starfa saman af heilindum og einurð? Mitt svar er, jú við eigum að gera það.“

Hann sagði hollt og gott að flokksmenn væru ekki alltaf sammála, að rökræða skerpti niðurstöðu. Menn ákveddu sig þó með lýðræðislegum hætti á endanum og greiddu atkvæði um niðurstöðu. 

Sumir líti á niðurstöðu flokksþings sem svik

„Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu, það á einnig við um flokkinn okkar. En það virðist ekki öllum gefið að geta sætt sig við það sem  flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna. Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni. Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona,  þetta er ekki  sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrí“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi? Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt.“

Sigurður Ingi sagðist hafa það á tilfinningunni að sumir þeir sem töluðu opinberlega um óánægju í flokknum væru að reyna að tala upp ágreining. Hann sagðist eiga erfitt með að skilja þá sem gerðu óánægjuna að sínum helsta vin, það væri ekki í anda Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi sagði flokksmenn þurfa að finna leiðir til sameiningar fremur en sundrungar. „Ég tel að allir þeir sem bjóða sig fram undir merkjum Framsóknarflokksins skuldi almennum félagsmönnum og fylgjendum okkar öllum, að við berjumst sameiginlega fyrir hugsjónum flokksins.“

Útibú frá útibúi í ríkisstjórn

Sigurður Ingi sagði að svo virtist sem nú stjórnaði einn flokkur landinu. „Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn.“ Hann benti á að sex af ellefu ráðherrum ríkisstjórnarinnar væru úr Sjálfstæðisflokknum og að þrír til viðbótar hefðu þar til fyrir ekki svo löngu verið flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Ríkisstjórnin hefði því væna hægri slagsíðu.

Ríkisstjórnin byrjaði á því að gefast upp fyrir aflandskrónueigendum, sagði Sigurður Ingi, og vísaði til samkomulags við þá í aðdraganda þess að fjármagnshöft voru afnumin. Þá gengi stjórnin fram í einkavæðingu í heilbrigðiskerfi og menntakerfi landsins. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV

 

Vill ekki feta í fótspor Le Pen og Trumps

Sigurður Ingi sagði að stefna Framsóknarflokksins byggði á sama grunni og áður. Hann sagði ekki ástæðu til að breyta stefnunni þó einhverjir segðu að heimurinn væri að breytast. „En hver er sú stefna, hverjir eru þeir straumar, af hverju erum við að missa; vilja menn feta sig á slóð forseta Bandaríkjanna eða Le Pen í Frakklandi og fleiri úr þeim ranni? Er einhver í þessum sal sem telur að þar liggi tækifæri Framsóknarflokksins? Er einhver sem telur að með því að víkja frá hefðbundnum gildum flokksins muni fylgið sópast að honum?“

Leynimakk og leyndarhyggju á ekki að líða, sagði Sigurður Ingi. „Við vinnum ekki á forsendum auðvaldsins, heldur manngildisins; hins almenna borgara, hvar sem hann er í samfélaginu, hver sem hann er, og hvaðan sem hann kemur. Við þá vinnu er nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum. Við eigum ekki að líða eitthvert leynimakk – leyndarhyggju. Við höfum ekkert að fela. Það er til að mynda sjálfsagt í mínum huga að Alþingi láti rannsaka einkavæðingu banka og sölu almannagæða, hver sem þau eru og hvenær sem salan átti sér stað. Og að mörgu leyti tel ég að það geti verið ein af forsendum þess að auka traust í samfélaginu. Og traust er mikilvægt.“

Vill breyta skattkerfinu

Sigurður Ingi kallaði eftir breytingum á skattkerfinu. „Við eigum að setja í gang vinnuhóp innan málefnastarfs okkar sem útfærir tillögur um róttæka breytingu á skattkerfinu, sem mun tryggja lægra skatthlutfall hjá meðaltekjufólki og þeim sem lægri hafa tekjurnar. Því sá hópur greiðir hærri skatta hlutfallslega en sambærilegir hópar á Norðurlöndum. Breytingin á líka að leiða til hærri og skýrari stuðnings við barnafjölskyldur.“ Hann sagði að með þessum hætti myndi jöfnuður í samfélaginu aukast og vonandi sátt um skiptingu gæða. Þetta ætti að vera meðal þess sem starfshópur um stefnu flokksins ætti að leggja áherslu á. Sigurður Ingi sagði að í haust yrði B-leiðin kynnt.

Breyta þarf peningastefnu og lækka vexti sagði Sigurður Ingi. Hann rifjaði upp að spákaupmenn hefðu flutt fé sitt til Íslands fyrir hrun til að hagnast á vaxtamun. Þetta hafi reynst landsmönnum dýrkeypt. Hann sagði hættuna við hávaxtastefnu vera að annað hvort yrði of miklu fjármagni veitt inn í landið eða flutt frá því. Gengi krónunnar yrði því annað hvort alltof hátt eða alltof lágt.

Haldi að sér höndum við sölu Landsbankans

Sigurður Ingi sagði að íslenska bankakerfið væri sennilega of stórt. Skoða þyrfti hvort skilja ætti að viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, og hvernig banka menn vildu hafa. Hann taldi að tryggja yrði ráðandi eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og að menn ættu að halda að sér höndum við sölu hans.

Einnig þyrfti að sinna byggðamálum og húsnæðismálum.
 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV