
Sigurður Ingi: Það þarf að kjósa upp á nýtt
Hann segir að formenn flokkanna hafi rætt saman í nótt til þess að glöggva sig á stöðunni og hvert framhaldið verði. Hann bendir á að stjórnarmyndunarviðræður eftir síðustu kosningar hafi verið mjög erfiðar þar sem mjög margt hafi verið reynt og þetta hafi verið niðurstaðan. „Ríkisstjórnin entist ekki nema í átta mánuði og það hlýtur að vera mjög erfitt að taka upp þráðinn í stjórnarmyndunarviðræðum án þess að til komi nýjar kosningar, ég held að það sé nokkuð augljóst,“ segir Sigurður Ingi.
Hann vill ekki svara því hvort Bjarni Benediktsson hafi óskað eftir því að Framsóknarflokkurinn komi inn í ríkisstjórnina í stað Bjartrar framtíðar. „Hvað okkur formönnum ýmissa flokka fór á milli í nótt og morgun læt ég ekki uppi, ég mun tala um það við þingflokkinn minn,“ segir Sigurður Ingi. En finnst honum það koma til greina? „Ég mun tala við þingflokkinn fyrst áður en ég læt uppi hvað mér finnst koma til greina,“ segir hann.