Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigurður Ingi: Óttast ekki klofning í flokknum

02.10.2016 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, segist ekki óttast klofning í flokknum eftir kosningarnar í dag. Hann sagði að það yrði sitt verk að kalla saman framkvæmdastjórn og þingflokk og fara yfir það hvernig yrði farið að því að virkja alla flokksfélaga fyrir stóru kosningarnar í lok mánaðarins.

Sigurður sagði að Framsóknarflokkurinn væri 100 ára og hefði gengið í gegnum ýmislegt.  Það væri styrkleikamerki fyrir flokkinn að ráða úr sínum málum með lýðræðislegum hætti. Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða í kosningunni í dag en andrúmsloftið í Háskólabíói var rafmagnað þegar tilkynna átti úrslitin.

Sigurður vildi ekki tjá sig beint um stöðu Sigmundar Davíðs - hann væri leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi og hann hefði fullan skilning á því að það væri erfitt að tapa. Hann vonaðist þó eftir því að Sigmundur myndi snúa aftur af fullum krafti. 

Sigmundur vildi ekki ræða við fjölmiðla eftir að úrslitin voru ljós en sagði þó að þau væru honum mikil vonbrigði. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV