Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigurður Ingi býður sig fram til formanns

23.09.2016 - 19:16
Mynd: RUV / RUV
Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins næstu helgi. Þetta tilkynnti hann í beinni útsendingu í fréttum sjónvarpsins í kvöld.

Sigurður sagði í samtali við fréttastofu að á þingflokksfundi fyrr í dag hefðu verið hreinskiptar umræður. Engum leyndist að það væri mikil ólga innan flokksins og í kringum forystuna. Því væri mikilvægt að leysa úr henni á lýðræðislegan hátt og leyfa flokksmönnum sjálfum að segja það sem þeim fyndist. 

Aðspurður hvort það væri áhættusamt að skipta um formann svona stuttu fyrir kosningar segir Sigurður að á flokksþingi kæmi niðurstaða og hver sem yrði kjörinn þar hefði óskorað umboð flokksins til þess að ganga til kosninga. Það væri betra en sú staða sem væri uppi í dag. 

Sigurður segir að kosningabaráttan hafi verið glæsileg í síðastu kosningum og hugmyndir Sigmundar Davíðs hafi verið frábærar fyrir flokkinn. Flokkurinn væri gríðarlega stoltur af honum fyrir alla þá vinnu. Nú væru aðrir tímar uppi. Flokkurinn væri að fara inn í breytta tíma og í samfélag þar sem er búið að gera upp hrunið. Málefnastaða flokksins væri gríðarlega sterk eftir þetta kjörtímabil.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV