Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigur Rósar-liðar kröfðust frávísunar

20.05.2019 - 10:43
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Bjarnfreður Ólafsson, verjandi liðsmanna Sigur Rósar, krafðist þess í morgun að skattsvikamáli gegn þeim yrði vísað frá á grundvelli laga um tvöfalda refsingu. Hann sagði í samtali við fréttastofu eftir fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ef liðsmenn Sigur Rósar yrðu sakfelldir yrði málinu að öllum líkindum skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Liðsmenn Sigur Rósar neituðu allir sök þegar skattsvikamál héraðssaksóknara var þingfest í síðasta mánuði. Fjórir liðsmenn sveitarinnar, ásamt endurskoðanda hennar, eru ákærðir fyrir skattsvik upp á samtals 150 milljónir. Eignir liðsmanna sveitarinnar voru kyrrsettar við rannsókn málsins. 

Þá er söngvari sveitarinnar, Jón Þór Birgisson eða Jónsi, og endurskoðandi hans ákærðir fyrir að hafa komið félagi í eigu Jóns Þórs undan greiðslu tekjuskatts af rúmlega 700 milljónum.  Þá mál snýst um samlagsfélagið Frakk sem Jón Þór á.

Bjarnfreður Ólafsson, verjandi liðsmanna Sigur Rósar, krafðist þess við fyrirtöku í morgun að málinu yrði vísað frá á grundvelli dóma um tvöfalda refsingu. Benti hann á að liðsmönnum Sigur Rósar hefði þegar verið gert að greiða álag.  

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í maí fyrir tveimur árum að íslenska ríkið hefði brotið á Jóni Ásgeir Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni í Baugsmálinu svokallaða. 

Jón Ásgeir var dæmdur í Hæstarétti til að greiða 62 milljóna króna sekt en hafðu áður verið sektaður vegna sömu brota.  Mannréttindadómstóllinn taldi að íslenska ríkið hefði með þessu brotið gegn 4. grein mannréttindasáttmálans þar sem fjallað er um réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. 

Aftur á móti komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í september fyrir tveimur árum að saksóknari mætti ákæra menn fyrir skattalagabrot þótt skattyfirvöld hefðu áður refsað þeim með 25 prósent álagi ofan á vangoldna skatta.