Sigur Rósar-liðar greiddu 76 milljónir í álag

22.05.2019 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Liðsmenn Sigur Rósar greiddu samtals 76,5 milljónir vegna álagsbeitingar ríkisskattstjóra eftir að ríkisskattstjóri gerði breytingar á opinberum gjöldum þeirra undir lok síðasta árs. Verjandi Sigur Rósar-manna líkir fyrirkomulaginu í máli þeirra við tilraunastarfsemi þar sem ákæruvaldið og skattyfirvöld reyni að finna leiðir til að koma sér undan skýrum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

Þetta kemur fram í fjórum greinargerðum Bjarnfreðs Ólafssonar, verjanda liðsmanna Sigur Rósar, til Héraðsdóms Reykjavíkur.  

Bæði núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar hafa verið ákærðir fyrir skattalagabrot en þeim er gefið að sök að hafa ekki talið fram tekjur eða arðgreiðslur. Þeir neituðu allir sök þegar málið var þingfest en skattsvikin eru talin nema 150 milljónum.  Þá er Jón Þór Birgisson eða Jónsi ákærður ásamt endurskoðanda sínum fyrir skattsvik í tengslum við samlagsfélagið Frakk. Þau brot nema samkvæmt ákærunni 146 milljónum króna.

Greinargerðirnar fjórar eru nánast samhljóða en þar er aðdragandinn að málinu rakin.  Þar kemur meðal annars fram að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi hafist um miðjan janúar 2016. Þeir Georg Holm, Kjartan Sveinsson og Orri Páll Dýrason gáfu tvívegis skýrslu hjá embættinu en Jón Þór einu sinni. 

Í desember 2017 voru síðan eignir í eigu þriggja liðsmanna kyrrsettar en í greinargerð Jóns Þórs kemur fram að tollstjóraembættið hafi kyrrsett hjá honum þrettán fasteignir, tvo bíla, tvö mótorhjól, sex bankareikninga og hlutafé.  Í lok sama árs lauk síðan rannsókn skattrannsóknarstjóra og í mars var liðsmönnum sveitarinnar tilkynnt að máli þeirra hefði verið vísað annars vegar til héraðssaksóknara og hins vegar ríkisskattstjóra. 

Undir lok síðasta árs gerði ríkisskattstjóri síðan breytingar á opinberum gjöldum og gerði Sigur Rósar-liðum að greiða álag upp á samtals 76,5 milljónir.  Hann féllst þó á athugasemdir þeirra varðandi fjögur félög. Ákæra héraðssaksóknara á hendur þeim var síðan gefin út í febrúar á þessu ári.

Og það er þetta sem verjandi Sigur Rósar-manna gerir athugasemdir við. Þau brot sem þeir hafi verið ákærðir fyrir séu sömu brot og þeir hafi þegar sætt refsingu fyrir í formi álagsbeitingar og mál þeirra hlotið margfalda málsmeðferð. Óboðlegt sé að skattyfirvöld og ákæruvaldið haldi áfram með óbreyttum hætti þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi í þrígang á síðustu tveimur árum verið dæmt brotlegt af Mannréttindadómstóli Evrópu. 

Vísar Bjarnfreður þar meðal annars til dóma í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Bjarna Ármannssonar. Hann segir að það fyrirkomulag sem hafi verið viðhaft í þessu máli líkist fremur „tilraunastarfsemi ákæruvaldsins og skattyfirvalda til að sjá hvaða tæknilegu útfærslu þeim kunni að vera færar til að koma sér undan skýrum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu um bann við endurtekinni málsmeðferð.“    

Þá bendir Bjarnfreður á að rannsókn héraðssaksóknara hafi dregist úr hófi og tekið langan tíma þar sem hún byggi að hluta til á rannsókn skattrannsóknarstjóra og niðurstöðu ríkisskattstjóra.  

Þá segir Bjarnfreður að heildarmálsferðartíminn frá því að rannsókn á skattskilum hófst og þar til greinargerðinni var skilað sé orðinn þrjú ár og fjórir mánuðir.  Liðsmenn sveitarinnar hafi á öllum stigum málsins verið samstarfsfúsir og reynt að aðstoða við rannsókn með afhendingu gagna, veitingu upplýsinga og skýrslugjöf hjá bæði skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi