Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sigur Rós spilar á Airwaves

08.05.2012 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Hljómsveitin Sigur Rós verður meðal hljómsveita sem spila á Airwaveshátíðinni í haust. Þetta var tilkynnt í dag. Hljómsveitin hefur ekki spilað á Íslandi í fjögur ár og það er liðinn meira en áratugur síðan hún kom síðast fram á Airwaves.

Það er tæplega hálft ár í Airwaves hátíðina en dagskráin er þó farin að taka á sig mynd. Tilkynnt hefur verið um þátttöku fjölmargra hljómsveita, jafnt íslenskra sem erlendra, og nú hefur Sigur Rós bæst í hópinn. Stórtónleikar sveitarinnar fara fram í Nýju Laugardalshöllinni á lokadegi hátíðarinnar 4. nóvember en miðasala hefst 16. maí.

Kári Sturluson, talsmaður Sigur Rósar, segir mikinn spenning í herbúðum hljómsveitarinnar. „Án þess að maður sé að gera lítið úr tónleikum annarsstaðar þá er öðruvísi spenna og stemning fyrir tónleika á Íslandi því þá er verið að spila fyrir vini og vandamenn og fólkið sem er strákunum kærast,“ segir Kári.

Ný plata Sigurrósar, Valtari, kemur út í lok þessa mánaðar, búast má við að tónlist af henni ómi á tónleikunum í bland við eldra efni. Sigur Rós mun spila víða á næstu mánuðum og leggur í júlí af stað í tónleikaferð um Bandaríkin, Japan og Evrópu.