Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Sigríður í framboð til biskups

18.01.2012 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Grafarholti gefur kost á sér til embættis biskups Íslands, þessu greindi hún frá í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Sigríður er fyrsti frambjóðandinn til embættisins, en eins og kunnugt er hyggst Karl Sigurbjörnsson láta af embætti biskups á þessu ári. Sigríður er önnur konan til að bjóða sig fram til embættisins, en séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir bauð sig fram fyrst kvenna árið 1997. Kjörstjórn kirkjunnar hefur enn ekki ákveðið hvenær kosið verður til biskups.

„Ég stend fyrir ákveðin málefni. Ég held að það séu aðallega fjögur málefni sem skipta mestu máli núna fyrir Þjóðkirkjuna. Ég tel að það sé þörf á töluvert miklum breytingum og umbótum. Það sem mér finnst vera stærst er að það er mjög mikil þörf á samfélagi við þjóðina. Með þjóðinni á ég bæði við á kirkjulegum vettvangi og þeim sem standa utan Þjóðkirkjunnar. Það þarf að ræða um trú og mannréttindi. Við þurfum að tala um fjölbreytt samfélag og hvernig við getum búið saman í þessu landi. Það þarf líka svolítið að gera upp það sem hefur farið aflaga. Síðan tel ég að það sé mjög mikilvægt að styrkja tengslin við söfnuðina í landinu, að styrkja þetta net safnaða sem Þjóðkirkjan er. Svo finnst mér líka mjög mikilvægt að dreifa valdi og efla lýðræði í kirkjunni, þannig að ég vil berjast fyrir því. Svo að lokum vil ég líka leggja mikla áherslu á það að breyta stjórnkerfi kirkjunnar. Það er mjög margt að gerast í sambandi við það, með endurskipulagningu stofnana, með öflugri starfsmannastefnu og gagnsærri stjórnsýslu. Þannig að það eru þessi fjögur atriði sem ég stend fyrir.“

Sigríður sagðist telja að hluti ástæðunnar fyrir því að fólk segði sig úr Þjóðkirkjunni væri sú að það teldi sig ekki hafa næg áhrif innan kirkjunnar, að það teldi sín einu áhrif vera að skrifa undir úrsögn úr Þjóðkirkjunni. Þessu væri að hluta hægt að svar með aukinni valddreifingu innan kirkjunnar.